fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Ítarlegt viðtal við Evu Dís, íslenska konu sem starfaði sem vændiskona: „Ég var rosalega markalaus í kynlífi og ástarmálum“

Margrét Gústavsdóttir
Mánudaginn 28. maí 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2004 starfaði Eva Dís Þórðardóttir sem vændiskona á þremur vændishúsum í Kaupmannahöfn. Þáverandi kærasti hennar kynnti hana fyrir þessum heimi sem hún segir hvaða stelpu sem er geta leiðst út í, eðlilega, enda eru allar konur systur, mæður, frænkur og dætur einhvers.

En hvað varð til þess að Eva Dís ákvað að greina opinberlega frá því að hún hefði verið í þessu starfi sem margir fordæma og hvernig vann hún sig svo út úr erfiðleikunum og áföllunum sem óneitanlega hljóta að fylgja?

Ég hitti Evu Dís þar sem hún býr ásamt sætum chihuahua hundi í snoturri kjallaraíbúð í Vesturbænum. Heimilið er skipulagt og snyrtilegt og ber öll merki þess að þar búi kona sem hugsar vel um sjálfa sig, bæði sál og líkama. Líklegast er engin vanþörf þar á því líf þessarar brosmildu og skarpgreindu konu hefur verið ótrúlega átakasamt til þessa.

Hvað kom eiginlega til að þú ákvaðst að segja frá því á borgarráðsfundi að þú hafir verið í vændi? Hvernig þorðirðu þessu?

„Þetta var reyndar ekki í fyrsta sinn sem ég opnaði mig um reynslu mína af vændi því það gerði ég í fjáröflunarátaki fyrir Stígamót haustið 2016. En þarna á borgarráðsfundinum má eiginlega segja að það hafi gerst óvart. Ég sat þarna á fundi og fannst umræðan stefna í ranga átt,“ segir Eva Dís.

„Borgin lagði á ráðin um að koma af stað árveknisátaki gegn mansali og vændi og við vorum þarna á fundi þar sem sérfræðingar og borgarfulltrúar töluðu. Umræðan barst eins og svo oft áður að erlendum vændiskonum og ég óttaðist að hún stefndi bara í sama gamla farið. Okkur finnst sú tilhugsun, að konur sem við gætum þekkt neyðist til að selja sig, mjög óþægileg og því er þægilegra að hugsa sér að vændiskonur á Íslandi séu útlenskar. Það er bara því miður ekki rétt. Tölurnar eru skakkar því íslenskar konur sem neyðast til að selja sig gera það ekki endilega að staðaldri og skilgreina sig ekki alltaf sem vændiskonur þó þær geri þetta stundum í neyð. En þarna sat ég sem sagt og hugsaði að enn værum við að forðast veruleikann. Ég virti líka fyrir mér fína fólkið í borgarráði sem sat í þessum fallega sal og hugsaði til konunnar sem þrífur þennan sal og launatölunnar hennar. Hvort að hún neyðist til að selja sig til að keppast við að gera börnin sín samkeppnishæf í íslensku samfélagi, svo að þau geti átt sömu hluti og börn fína fólksins í borgarráði? Allt í einu var ég svo bara komin upp í pontu og það var af tveimur ástæðum. Önnur er sú að ég vil ekki sjá neinn neyðast út í vændi en ef fólk gerir það þá vil ég að viðkomandi fái þá aðstoð sem hann eða hún þarf til að komast yfir afleiðingarnar sem þessu fylgja. Hin var einfaldlega sú að ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að skapa meðvitaðra samfélag.“

„Okkur finnst sú tilhugsun, að konur sem við gætum þekkt neyðist til að selja sig, mjög óþægileg og því er þægilegra að hugsa sér að vændiskonur á Íslandi séu útlenskar.“

Hvernig skilgreinir þú vændi? Hvað er það í þínum huga?

„Sjálfsskaði og ofbeldi. Sjálfsskaði af hálfu vændiskonunnar, eða manneskjunnar sem er að selja sig, og ofbeldi af hálfu kaupandans. Ef ég hugsa um það þá er vændiskaupandinn líka í sjálfsskaða. Það hlýtur að vera einhvers konar rof hjá einstaklingi sem borgar annarri manneskju fyrir að stunda það sem hann telur vera kynlíf án þess að skuldbinda sig tilfinningalega. Að vilja aftengja sig manneskju og jafnvel aftengjast sjálfum sér og stunda svo þessa athöfn finnst mér bara eitthvað skakkt. Það hlýtur að vera eitthvað í einstaklingnum sem hann vill ekki horfast í augu við. Hann ætti mögulega að eyða peningunum í sálfræðimeðferð en ekki borga annarri manneskju fyrir að níðast á henni. Og mér er alveg sama hvort viðkomandi telur sig bara vera að stunda eitthvað venjulegt. Það er ekkert eðlilegt við að riðlast á annarri manneskju fyrir peninga. Jafnvel þó sú manneskja telji sig vera samþykka.“

Meinarðu þá að sá eða sú sem kaupir vændi skaði sig með því að gera þetta og það sama gildi um fólk sem er í vændi?

„Já allir tapa. Samfélagið líka. Nú er ég ekki mjög virk á samfélagsmiðlum. Áfallastreitan og afleiðingarnar af því ofbeldi sem ég hef orðið fyrir hafa gert það að verkum að ég er ekki svo áfjáð í að blanda mér í umræður á kommentakerfum. En þegar ég skoða þetta þá sé ég að umræðan er oft á svo miklum villigötum. Um daginn rak ég t.d. augun í umræður um sænsku leiðina en þar vildi einhver meina að áhrifamáttur hennar væri takmarkaður vegna þess að það má ekki nafngreina vændiskaupendur. Og þar sem þeir fái lokuð réttarhöld hafi lögin ekki fælingarmátt. Svo voru þarna einhver komment sem líktu þeirri ákvörðun að selja líkama sinn við að selja fíkniefni. Þarna er verið að líkja saman eplum og álframleiðslu að mínu mati. Þetta sýnir bara hversu mikil fáfræðin um vændi og skaða þess er.“

„…um leið var ég sjálf alltaf á útsölu, það var alltaf afsláttur.“

Þú minntist líka á að það væri óvinnandi vegur að ætla sér ein í það verkefni að stuðla að viðhorfsbreytingu til vændis. Svipað og að ætla sér ein síns liðs að breyta viðhorfum til fíkniefnaneyslu. Ég finn fyrir pínulitlu rumski hvað viðhorfin til þeirra mála varðar. Sífellt fleiri virðast líta á fíknihegðun sem sjálfsskaða og heilsufarsvanda og þannig sama hvaða vímuefni er ofnotað; vín, viský, kannabis, kókaín o.s.frv…

„Já. Eða matur, peningaeyðsla og hvaðeina? Eftir að ég byrjaði að mynda mér sjálfstæðar skoðanir fæ ég stundum sjokk yfir því hvað margir virðast halda fast í skoðanir sem eru myndaðar í fordómum og ótta. Það má segja að það sé samt bara nýlega skeð því hér áður fyrr var ég svo meðvirk að ég sveiflaðist eins og vindhani eftir vindáttinni og var bara sammála síðasta ræðumanni og síðari árin hef ég aðallega einbeitt mér að bata mínum og líðan. Samfélagsmiðlar, kommentakerfin og skoðanirnar í þjóðfélaginu eru þannig eitthvað sem ég er bara nýlega byrjuð að kynna mér.“

Ung og saklaus fermingarstúlka.

Útskúfuð úr samfélaginu á Húsavík

Flettum aðeins til baka í bókinni og byrjum á fyrsta kafla. Eva Dís fæddist á Húsavík þann 30. júní árið 1978. Þó fjölskylda hennar hafi á yfirborðinu virst í lagi ólgaði vanlíðan undir. Pabbi hennar var drykkfelldur og móðir hennar þunglynd og sjálf mætti Eva miklu einelti í skóla.

„Við vorum engin vandræðafjölskylda en bæjarbúar litu hins vegar á okkur sem aðkomufólk þó að bæði ég og systir mín séum fæddar þarna. Okkur var ekki hleypt inn í samfélagið nema að takmörkuðu leyti. Alla mína skólagöngu, og fram í níunda bekk, varð ég fyrir miklu einelti og útskúfun. Núna finnst mér skrítið að hugsa til þess að það var kallað á eftir mér á ganginum að ég væri hóra og mella og svo auðvitað þessi ömurlegu skilaboð um að ég væri ekki nægilega góð til að vera með hinum.“

Eva átti samt alltaf tvær vinkonur sem hún lék sér við. Lengi vel afneitaði hún því hversu alvarlegt ofbeldið í skólanum hafði verið og réttlætti það með því að hún hafi þó alltaf átt þessar tvær vinkonur:

„Núna veit ég að það var bara leið til að lifa þetta af.“

Vildi vernda pabba sinn fyrir öllu sem gat sært hann

Svo skildu mamma þín og pabbi þegar þú varst fimmtán ára. Hvernig tókstu því?

„Alls ekki vel. Mér fannst svo ósanngjarnt að ég gæti ekki átt mína fjölskyldu áfram, svona upp á mína framtíð… eineltið fór illa með mig og þó að ég sæi alveg erfiðleikana sem þau glímdu við þá fannst mér þetta ekki sanngjarnt. Ég var líka mikil pabbastelpa og fannst erfitt að hann þyrfti að fara. Hann var farin að drekka illa á þessum tíma og mér og mömmu samdi mjög illa. Ég var líka meðvirk með honum og vildi vernda hann fyrir öllu sem gat sært hann.“

Var aldrei boðið í afmæli til skólasystkina

Sumarið fyrir síðasta bekkinn í grunnskóla kynntist Eva strák sem var fjórum árum eldri en hún sjálf. Hún var fjórtán ára og hann átján.

„Hann átti líka sportbíl og var mikið eldri en ég sem sennilega gerði það að verkum að viðhorf krakkanna í minn garð gerbreyttist. Þegar ég mætti í skólann um haustið var eins og það hefði öllum verið skipt út í bekknum en samt voru þetta krakkarnir sem höfðu beitt mig svo miklu einelti og ofbeldi áður. Allt í einu var mér boðið í afmæli og bekkjarpartý og allir voru til í að vera vinir mínir. Fram að þessu hafði mér aldrei verið boðið í afmæli til skólasystkina minna og þau ekki komið í mín.“

Vildirðu ganga langt svo að öðrum líkaði vel við þig? Með öðrum orðum, varðstu þóknunargjörn af þessari höfnun í skólanum?

„Já, mjög. En meðvirknin spratt líka upp úr alkóhólismanum heima hjá mér. Mamma er auðvitað alveg brjálæðislega meðvirk og ég lagði mikið á mig til að fá jákvæða svörun frá öðrum. Sambandið mitt við fyrsta kærastann gekk eiginlega bara út á það að ég var að reyna að þóknast honum. Þegar Stígamót fóru af stað með ofbeldisvarnarátakið Sjúk ást, opnuðust augu mín mikið og ég sá að þessi svokölluðu ástarsambönd sem ég hafði átt í snerust minnst um ást. Þau snerust um þráhyggju og örvæntingarfulla leit að samþykki og viðurkenningu. Að gefa og gefa og gefa í von um að fá eitthvað til baka og um leið var ég sjálf alltaf á útsölu, það var alltaf afsláttur.“

Smelltu HÉR til að halda lestrinum áfram.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“