„Ég segi það sem mér finnst“

Lilja Alfreðsdóttir um æsku sína í Fellahverfi og hvernig hún komst til manns í Suður-Kóreu

Mynd: Brynja

Lilja Dögg Alfreðsdóttir varð fyrst áberandi í fjölmiðlum fyrir um ári, þegar hún tók við embætti utanríkisráðherra. Segja má að leið hennar inn í stjórnmálin hafi haldist í hendur við stærðargráðu þeirra verkefna sem störf hennar hafa fært henni, en áður en hún fór í pólitíkina var hún aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands. Hún starfaði einnig náið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á árunum 2010–2013 og segir þá reynslu hafa haft mikil áhrif á sig.

Lilja býr í snotru raðhúsi í Fossvoginum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra. Heimili hennar er alþýðlegt og laust við allt sem maður myndi kalla snobb. Anddyrið tekur á móti manni, fullt af yfirhöfnum barnanna og uppi á vegg hangir litríkt fiðrildi, leirlistaverk eftir dóttur hennar sem leikur við besta vin sinn inni í herbergi þegar blaðamann og ljósmyndara ber að garði. Á neðri hæðinni dundar sonur hennar sér í leikjatölvu en Lilja er á fullu að ganga frá í eldhúsinu.

„Ég er að fara að halda smá kokteilboð hérna klukkan sex. Svona er þetta líf nútímakonunnar,“ segir hún og skellir upp úr. Það er ekki að sjá að umræður um stjórnarmyndun séu að taka þessa staðföstu konu á taugum. „Ég er búin að læra að stressa mig ekki of mikið á stjórnmálunum. Það þýðir ekkert. Maður verður að halda ró sinni enda er alltaf eitthvað sem gengur á,“ segir Lilja sem segist aldrei hafa ætlað sér að fara út í pólitíkina þrátt fyrir að faðir hennar, Alfreð Þorsteinsson, hafi verið mjög áberandi stjórnmálamaður um margra ára skeið. „Þrasið er auðvitað svolítið krefjandi og ætli það fæli ekki helst fólkið frá þátttöku. Ég ætlaði mér aldrei í stjórnmál en svo leiddu umfangsmikil verkefni í vinnunni til þess að það varð sjálfsagðara fyrir mig að næstu áskoranir yrðu á þessum vettvangi,“ segir Lilja en að loknum ráðgjafarstörfum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tók hún aftur við stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands í eitt ár og var því næst verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu frá 2014, eða þangað til hún tók við embætti utanríkisráðherra árið 2016.

Hún nálgaðist pólitíkina til dæmis þegar hún byrjaði að vinna að almennu skuldaleiðréttingunni og losun fjármagnshafta og þegar hún hóf störf hjá forsætisráðuneytinu varð erfitt að víkjast undan. „Áhugi minn jókst jafnt og þétt. Þegar þáverandi forsætisráðherra sagði af sér og óskaði eftir því að ég tæki að mér embætti utanríkisráðherra þá ákvað ég að mæta þeirri áskorun,“ segir hún.

[[E5E14D37DB]]

Stóð með villingunum í Breiðholti

En hvaðan kemur þessi skelegga Framsóknarkona sem svo margir virðast bera traust til? „Ég ólst upp í Breiðholtinu og stundaði grunnskólanám í hinum goðsagnakennda Fellaskóla. Þetta var ótrúlega skapandi og skemmtilegt hverfi, iðandi af fjörugu mannlífi og mér leið alltaf vel í þessu umhverfi. Í Fellaskóla var ég meðal annars formaður nemendaráðs í tíunda bekk, fór í ræðulið og tók þátt í helstu spurningakeppnum,“ segir hún og bætir við að þrátt fyrir að hafa ekki verið neinn Breiðholtsvillingur sjálf hafi hún alltaf staðið með sínu fólki.

„Ég var allt of alvörugefinn unglingur til að bera titilinn Breiðholtsvillingur en auðvitað stóð ég alltaf með mínu fólki. Ef upp kom að krökkunum í Fellahverfinu væri kennt um eitthvað að ósekju þá var formanninum að mæta,“ segir hún og hlær að minningunni.

Langamma sagði að MR væri besti skólinn á landinu

Frá því Lilja var fimm ára hafði langamma hennar alltaf lagt mikla áherslu á að hún færi Menntaskólann í Reykjavík og í hennar huga kom því ekkert annað til greina enda hafa langömmur alltaf lög að mæla.

„Pabbi reyndi að benda mér á að það væru alveg til aðrir skólar. Til dæmis Fjölbraut í Breiðholti. Þá gæti ég bara gengið í skólann. Mér fannst það ekki koma til greina. Ég treysti langömmu, fór MR og sé ekki eftir því í dag. Við völdum þennan skóla, nokkrar vinkonur úr Breiðholtinu. Áttum frábær menntaskólaár og höldum enn mjög góðu sambandi.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.