Um 150 manna leitarhópur, þyrlur og sporhundar hafa tekið þátt í leitinni en enn sem komið er hefur hún ekki borið árangur. „Við munum ekki gefast upp strax,“ segir Robert Parker, lögreglufulltrúi í Pictou-sýslu í samtali við CBC.
Móðir barnanna, Malehya Brooks-Murray, segir að hún hafi vaknað snemma á föstudag og heyrt í börnum sínum vera að leika sér í næsta herbergi.
Hún sofnaði aftur og segir að börnin hafi verið á bak og burt þegar hún vaknaði nokkru síðar og dyr út í garð hafi staðið opnar. Stjúpfaðir barnanna, Daniel Martell, tekur undir þessa frásögn og segir allt benda til þess að börnin hafi farið út að leika en villst. Svæðið sem um ræðir er strjálbýlt og leitarsvæðið stórt.
„Við fórum á fætur og leituðum að þeim út um allt. Ég hringdi strax í 911 því ég vissi að það væri eitthvað að,“ segir Malehya. Unnusti hennar segist hafa farið strax upp í bíl og ekið af stað og farið að leita að börnunum.
Lögregla vill ekki segja til um það hvort einhverjar vísbendingar um börnin hafi komið fram en lögregla sé með alla anga úti við rannsókn málsins.