Nú hefur ný uppgötvun, sem var gerð á Google Maps, hleypt miklu lífi í samfélag samsæriskenningasmiða. Netnotandi einn sá þríhyrndan turn á þessu margumtalaða og fræga svæði og hefur fólk bæði heillast af þessari uppgötun og hræðst.
Á gervihnattarmyndinni, sem er í mikilli dreifingu á hinum ýmsum samfélagsmiðlum og spjallrásum, sést há bygging á hringlaga, steyptum palli. Byggingin er þríhyrningslaga, stendur alveg ein og það sem er kannski allra mikilvægast – hún líkist einna helst einhverju sem fólk sér í vísindaskáldsögumyndum.
Notendur á samsæriskenningasíðunni „Dreamland Resort“ segja að byggingin hafi verið reist á tímabilinu september 2005 til janúar 2006. Hún er um 47 metrar á hæð og 9 metrar á breidd. Hún getur að sögn snúist í hring.
Margir hafa velt því upp að turninn sé hugsanlega fullkominn fjarskiptabúnaður, hugsanlega fyrir flugumferð eða tilraunir með rafsegulbylgjur á hinu nærliggjandi RCS-svæði (Radar Cross Section).
Yfirvöld segja að nafn svæðisins sé „Nevada Test and Training Range“ og það var fyrst 2013 sem þau viðurkenndi að Area 51 sé til.
En hvað sem líður opinberum skýringum, þá eru margar „óopinberar“ skýringar á kreiki. Einn Reddit notandi sagði Area 51 hafi verið byggt sérstaklega til að vekja vangaveltur hjá fólki.
„Area 51 er staðurinn sem stjórnvöld vilja að við horfum á en hin raunverulega starfsemi fer fram í „svörtum bækistöðvum“ sem enginn veit nafnið á,“ sagði annar.
Af hverju núna?
Þrátt fyrir að turninn hafi verið reistur á árunum 2005-2006, þá er það fyrst núna sem hann hefur vakið athygli á Internetinu og því má spyrja sig af hverju núna?
Hugsanleg skýring er að myndabanki Google Maps hafi verið uppfærður eða þá að algórytmarnir hafi á nýjan leik beint kastljósinu að Nevadaeyðimörkinni.
Eða kannski, og nú verður þetta sérstaklega áhugavert, vegna þess að eitthvað nýtt sé komið fram.
En hver sem tilgangurinn með turninum er, þá virkar hann eiginlega eins og sviðsmynd í kvikmynd, vísindaskáldsögu. Þríhyrnd bygging sem getur snúist, engar byggingar nærri og staðsettur á einu lokaðasta og þekktasta hersvæði heims. Þetta er eiginlega eins og eitthvað úr X-Files.
Líklega fáum við aldrei að vita hver tilgangurinn með turninum er, hvort hann tengist samskiptum við vitsmunaverur frá öðrum plánetum, flugumferðarstjórn eða öðru. En það er einmitt þessi leynd sem gerir Area 51 svo spennandi.