Independent skýrir frá þessu og segir að lítið sé vitað um pólitískar skoðanir páfans en hann hafi þó opinberlega gagnrýnt stefnu Trump í málefnum innflytjenda.
Áður en hann var kjörinn páfi, gagnrýndi hann JD Vance, varaforseta, og sagði hann hafa rangt fyrir sér því Jesú krefjist þess ekki að fólk forgangsraði ást sinni á öðrum.
Trump hefur aðeins sagt að það sé mikill heiður að Bandaríkjamaður hafi verið kjörinn páfi.
En sumir stuðningsmenn hans eru gagnrýnir á val páfans og biðu ekki boðanna með að ráðast á hann og gagnrýna.
Steve Bannon, fyrrum aðalráðgjafi Trump, sagði í samtali við BBC að það hafi verið áfall að heyra hver var kjörinn páfi.
„Það var mér áfall að maður geti verið kjörinn páfi eftir færslur sínar á Twitter og yfirlýsingar hans um bandaríska stjórnmálamenn,“ sagði Bannon.
Bannon, sem er kaþólikki, sagði að það muni örugglega koma til deilna á milli nýja páfans og Trump.
Laura Loomer, öfgasinnuð hægrikona og samsæriskenningasmiður, er sögð hafa greiðan aðgang að Trump og hún er vægast sagt ósátt við nýja páfann. Hún sagði hann vera „Trump-andstæðing“, „MAGA-andstæðing“, „talsmann opinna landamæra“ og „Marxista eins og Frans Páfi“.