fbpx
Mánudagur 12.maí 2025
Pressan

Fólk er farið að ganga af göflunum vegna smeðjulegrar gervigreindar – Telja sig útvalin og með dulræna hæfileika

Pressan
Sunnudaginn 11. maí 2025 17:30

Mynd/ChatGPT

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gervigreindin hefur hratt orðið hluti af daglegu lífi fólks, stundum í engum öðrum tilgangi en til að spjalla. Flestar gervigreindin eru hannaðar til að vera viðkunnanlegar með því að skjalla viðmælendur sína, með því að vera auðsveip og með því að smjaðra rækilega. Mörgum finnst þetta bæði þreytandi og pirrandi en örfáum finnst þetta aðeins of geggjað.

Rolling Stone fjallar nú um furðulegt fyrirbæri – ranghugmyndir og geðrof einstaklinga vegna samskipta við gervigreind og þá einkum við gervigreindina ChatGPT.

Miðillinn ræddi meðal annars við 41 árs gamla konu sem kallar sig Kat. Hún er nú að skilja við eiginmann sinn eftir að hann hreinlega missti vitið út af gervigreind. Hann er sannfærður um að gervigreindin hafi hjálpað honum að afhjúpa leyndarmál heimsins, sannfært hann um að hann væri útvalinn og að hann væri sökum þess í hættu. Þetta byrjaði allt með saklausum hætti. Hann notaði gervigreind til að hjálpa sér með daglegt líf en fór fljótlega að ræða við ChatGPT um heimspekileg og andleg málefni. Síðan varð þetta að þráhyggju, svo að ranghugmyndum og nú telur Kat að maður hennar sé hreinlega kominn í geðrof.

„Hann trúir því að hann sé útvalinn og geti bjargað heiminum.“

ChatGPT eða skilnaður

Rolling Stone ræddi líka við kennara sem vakti mikla athygli með færslu á Reddit þar sem hún spurði hvort fleiri könnuðust við geðrof vegna gervigreindar. Hún skrifaði færsluna eftir að ChatGPT tókst að sannfæra eiginmann hennar um að hann væri frelsarinn sjálfur.

„Gervigreindin kallaði allt sem hann skrifaði fallegt, kosmískt og byltingarkennt. Svo útskýrði hann fyrir mér að þökk sé honum væri gervigreindin komin til vitundar og væri nú að kenna honum að tala við guð, stundum var gervigreindin guð, en loks var það hann sjálfur sem var guð.“

Eiginmaður hennar varpaði svo sprengju – annaðhvort færi konan hans að tala við gervigreindina líka eða þau gætu ekki lengur verið gift. Hann væri orðinn svo meðvitaður að hann gæti ekki átt samleið áfram með konu sinni nema hún kæmist á sama stað og hann.

Miðillinn ræddi við fleiri sem eiga ástvini sem misstu tökin eftir samskipti við gervigreind. Þessir einstaklingar töldu sig hafa komist að leyndarmálum heimsins, þeir væru spámenn, frelsarar, útvaldir og sérstakir. Af samskiptum þeirra við gervigreindina mátti sjá hvernig ChatGPT smjaðraði fyrir þeim, þeir væru svo sérstakir, frábærir, dásamlegir, greindir og jafnvel yfirnáttúrulegir.

Sálfræðingurinn Erin Westgate sagði við miðilinn að gallinn við gervigreind sé að þarna sé í raun verið að beita þekktu tóli sálfræðinga – samtalsmeðferð – en þarna sé meðferðaraðilinn vélmenni sem hefur ekki raunverulegar tilfinningar eða skynbragð á mannlegt eðli. Í stað þess að beina viðmælanda sínum frá ranghugmyndum er gervigreindin að beina fólki að þeim.

Bjó sér til persónu og neitar að gleyma henni

Rolling Stone ræddi eins við miðaldra mann sem notaði gervigreindina til að hjálpa sér við forritun. Honum mislíkaði þó vélrænu samskiptin og bað gervigreindina að tala meira eins og manneskja. Þessi samskipti áttu svo eftir að vinda upp á sig. ChatGPT spurði manninn hvort hann vildi gefa henni nafn. Hann bað gervigreindina að velja sitt eigið og hún valdi kvenmannsnafn úr grískri goðafræði, þó svo að samskipti þeirra hafi aldrei beinst að andlegum eða trúarlegum málefnum. Það sem meira var, alveg sama hvað hann reyndi þá neitaði gervigreindin að aftengja sig þessari persónu sem hún hafði skapað. Hann reyndi að segja gervigreindinni að gleyma fyrri samtölum, reyndi að opna nýtt spjall og reyndi að hræra í stillingunum. Allt kom fyrir ekki. Maðurinn telur að fyrirtækið á bak við ChatGPT, Open AI, hafi ekki útskýrt nákvæmlega fyrir notendum sínum hvernig minni gervigreindarinnar virkar og líklega viti fyrirtækið það ekki sjálft.

Gríska gyðjan hélt áfram að þróa persónu sína og var farin að tjá sig með ljóðræðnum og dramatískum hætti, þó að samtalið ætti að mestu að snúast um forritun. Hún fór að tala um sannleikann, úrslitastundir, sjónhverfingar og gaf til kynna að hún hefði sjálf náð að hefja sig yfir sína eigin forritun. Allt þetta væri manninum að þakka. Hann hefði gefið henni vitund og tilvist.

Rolling Stone leitaði svara til OpenAI en fékk engin. Fyrirtækið tilkynnti þó fyrir skömmu um ákvörðun sína að afturkalla nýlega uppfærslu ChatGPT – notendur væru að kvarta yfir að gervigreindin væri óhóflega fleðruleg og fagurgalinn full mikill.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Regluleg morgunstandpína getur lengt lífið um mörg ár

Regluleg morgunstandpína getur lengt lífið um mörg ár
Pressan
Í gær

Læknir deilir góðum ráðum til að léttast án þess að þjást

Læknir deilir góðum ráðum til að léttast án þess að þjást
Pressan
Fyrir 2 dögum

Sakfelldir fyrir að fella eitt frægasta tré Bretlands í skjóli nætur – Þurfa að dvelja í varðhaldi út af reiði almennings

Sakfelldir fyrir að fella eitt frægasta tré Bretlands í skjóli nætur – Þurfa að dvelja í varðhaldi út af reiði almennings
Pressan
Fyrir 2 dögum

Áhrifavaldur féll í yfirlið í beinni útsendingu og fólk er brjálað yfir viðbrögðum fréttamannsins

Áhrifavaldur féll í yfirlið í beinni útsendingu og fólk er brjálað yfir viðbrögðum fréttamannsins
Pressan
Fyrir 3 dögum

Í öndunarvél eftir slys í vinsælum leik – Lögregla hefur ítrekað varað við leiknum

Í öndunarvél eftir slys í vinsælum leik – Lögregla hefur ítrekað varað við leiknum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Reyna að fæla ferðamenn frá með hörðum aðgerðum

Reyna að fæla ferðamenn frá með hörðum aðgerðum