fbpx
Mánudagur 27.október 2025
Pressan

Ákvað að flytja úr landi og lét ChatGPT velja áfangastaðinn – „Það er eiginlega ótrúlegt að ég búi hér”

Pressan
Mánudaginn 27. október 2025 06:00

Mynd/Julie Neis

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er eiginlega ótrúlegt að ég búi hér. Ég þarf stundum að klípa mig til að trúa því,“ segir hin bandaríska Julie Neis sem ákvað fyrr á þessu ári að flytja frá Bandaríkjunum. Hún fór nokkuð óvenjulega leið í leit sinni að nýju landi því hún eftirlét gervigreindarforritinu ChatGPT að velja fyrir sig nýtt heimili.

Julie sagði CNN sögu sína á dögunum en hún er frá Michigan og ólst upp í Texas. Á árunum 2004 til 2009 bjó hún í París áður en hún flutti aftur til Bandaríkjanna og byggði upp farsælan feril í tæknibransanum þar sem mikið var um ferðalög.

„Ég var í frábæru starfi með góð laun, en ég brann út,” segir hún og bætir við að kvíði, þunglyndi og síþreyta hafi gert henni lífið erfitt. Lýsir hún því að hún hafi verið orðin eins og „skelin af sjálfri sér“ þegar hún ákvað að hún þyrfti að breyta til og skipta um umhverfi.

Gervigreindin kom með svarið

Þar sem hún hafði áður búið í París var hún áhugasöm um að endurnýja kynnin við Frakkland. En París er stór, hröð og hávaðasöm borg og það var eitthvað sem hún þurfti ekki í líf sitt. Henni datt þá í hug að leita ráða hjá ChatGPT sem hún hafði áður notað.

Hún sagði forritinu frá gildum sínum í lífinu, lífsstílnum sem hún þráði og umhverfinu sem hún vildi vera í. Eins og notendur ChatGPT vita kemur maður sjaldnast að tómum kofanum þar og segir hún að forritið hafi lagt til tvo bæi, annars vegar Sarlat la Canéda og Uzés. Og þegar hún bað forritið um að velja á milli þeirra svaraði það einfaldlega: Uzés.

„Ég ákvað að treysta því,“ segir hún.

Sér ekki eftir neinu

Hún seldi því bílinn sinn í San Francisco, sagði upp starfi sínu og flaug til Frakklands með tvær töskur. Í mars síðastliðnum steig hún í fyrsta skipti fæti inn í bæinn Uzés sem er í suðurhluta Frakklands og ekki ýkja langt frá borgum eins og Marseille, Montpellier og Nice.

Til að byrja með leigði hún sér fallega íbúð í miðbænum og voru hennar helstu áhyggjur þær að hún yrði einmana. Í viðtalinu við CNN segir hún þó að hún hafi fljótt byrjað að mynda tengsl – fyrst við eldri útlendinga í bænum og síðar við fólk á svipuðum aldri og hún.

Hún segist ekki sjá eftir ákvörðun sinni. „Það er eiginlega ótrúlegt að ég búi hér. Ég þarf stundum að klípa mig til að trúa því,“ segir hún og bætir við að lífið í bænum sé einfalt og gott. Hún fer á markaðinn tvisvar í viku, fer í göngutúra um þröngar steingötur og borðar kvöldverðinn undir berum himni. Hún segist ekki sakna mikils frá Bandaríkjunum, nema þá helst matvöruverslana sem eru opnar alla daga vikunnar – líka á sunnudögum.

Julie heldur úti YouTube-rásinni French Julie Travels þar sem hún deilir reynslu sinni og leyfir fólki að fylgjast með lífinu í suðurhluta Frakklands. Hún segist vera að íhuga að setjast að í bænum fyrir fullt og allt og kaupa sér íbúð – hún ætli í það minnsta ekki að flytja aftur til Bandaríkjanna.

Hún segist í dag vera komin yfir kulnunina og það sé ef til vill rólega lífinu í Frakklandi að þakka. „Ég er orðin ég sjálf aftur og ég er miklu hamingjusamari. Þetta er ævintýri og ég er þakklát fyrir að hafa láti gervigreindina velja þetta fyrir mig.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Fékk skilaboð frá manninum sem braut á henni í háskóla fyrir rúmum áratug – „Svo, ég nauðgaði þér“

Fékk skilaboð frá manninum sem braut á henni í háskóla fyrir rúmum áratug – „Svo, ég nauðgaði þér“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Morðinginn vill ekki greiða fjölskyldum fórnarlamba sinna meira – Segir þær hafa fengið nóg úr GoFundMe-söfnun

Morðinginn vill ekki greiða fjölskyldum fórnarlamba sinna meira – Segir þær hafa fengið nóg úr GoFundMe-söfnun