Um var að ræða fjórtándu aftökuna í Flórída á árinu og hafa þær aldrei verið fleiri. Verjendur hans reyndu að fá dómara til að sýna Smithers miskunn vegna hás aldurs en það var ekki tekið í mál.
Það var í maí 1996 sem Smithers mælti sér mót við tvær konur, Christy Cowan og Denise Roach, á móteli á mismunandi tímum þar sem hann bauð þeim peninga fyrir kynlíf. Á þessum tíma vann hann við garðyrkjustörf á 27 hektara landareign nálægt Plant City í Flórída.
Eigandi landareignarinnar, ónefnd kona, var félagsmaður í kirkju þar sem Smithers gegndi starfi aðstoðarmanns og fékk hann garðyrkjustarfið í gegnum hana.
Þann 28. maí 1996 kom konan óvænt að Smithers þar sem hann var að þrífa blóðuga öxi á bílastæði við hús á lóðinni.
Hún spurði hann hvað hefði gerst og svaraði hann því til að „smádýr hafi líklega verið drepið þarna“ – sem átti að skýra blóðið. Hún tók eftir að blóð var á gólfinu í bílskúrnum og á bílastæðinu við húsið.
Konunni leið ónotalega eftir atvikið og ákvað að hafa samband við lögreglu. Þegar lögreglumaður kom á vettvang síðar sama dag var búið að hreinsa blóðið burt, en för sáust í grasinu eins og eitthvað hefði verið dregið út í tjörn skammt frá. Þegar lögreglumaðurinn elti slóðina fann hann lík Christy og Denise í tjörninni. Báðar höfðu verið kyrktar og barðar með einhvers konar verkfæri, líklega sömu öxi og Smithers var að þrífa við bílskúrinn.
Smithers játaði sök í málinu og hlaut hann dauðadóm árið 1999. Smithers var úrskurðaður látinn klukkan 18:15 á þriðjudag.