Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ekki viss um að hann sé á leiðinni til himnaríkis. Hann ræddi við fjölmiðla um borð í einkaþotu embættis síns, Air Force One, í gær þar sem hann svaraði spurningum um tilraunir sínar til að stilla til friðar milli Rússlands og Úkraínu.
„Ef ég gæti bjargað 7 þúsund einstaklingum á viku frá því að vera drepnir þá held ég að það væri ansi gott – ég vil reyna að komast til himnaríkis ef það er mögulegt,“ sagði forsetinn. „Ég er að vera svolítið krúttlegur. Ég held að það sé ekkert sem muni koma mér til himna. Í alvörunni. Ég held mér sé ekki ætlað að fara til himna. Ég gæti verið í himnaríki einmitt núna, þar sem við fljúgum með Air Force One. Ég er ekki viss um að ég komist til himna en ég hef gert lífið betra fyrir margt fólk.“
Forsetinn bætti svo við að hefði forsetakosningunum ekki verið stolið frá honum árið 2020 hefði hann mögulega náð að koma í veg fyrir innrás Rússa í Úkraínu.
„Við vorum með vanhæfa ríkisstjórn. Við vorum með vanhæfan forseta. Og út af svikulum kosningum eru milljónir manna dánar. Og meðan ég man, þetta Ísraels-dæmi var erfiðara að koma í gegn út af fyrri ríkisstjórn.“
Himnaríki hefur verið forsetanum ofarlega í huga í ár, en hann hefur ítrekað velt því fyrir sér hvort hann eigi þangað erindi. Meðal annars sendi hann styrktaraðilum tölvupóst fyrir mánuði síðan þar sem hann óskaði eftir styrkjum því „mig langar að komast til himnaríkis“. Hann minnti á að á síðasta ári hafi hann verið við dauðans dyr í banatilræði. Aðeins hafi munað örfáum millimetrum.
„Ég trúi því að Guð hafi bjargað mér fyrir aðeins eina ástæðu: TIL AÐ GERA BANDARÍKIN FRÁBÆR AFTUR!,“ sagði forsetinn í tölvupóstinum og bætti við að hann gæti ekki náð þessu markmiði eins síns liðs.