fbpx
Þriðjudagur 18.febrúar 2025
Pressan

Fór með Elon Musk til Auschwitz og fer hörðum orðum um auðmanninn – „Siðblindingi í orðsins fyllstu merkingu“

Pressan
Föstudaginn 24. janúar 2025 12:30

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona sem fór með auðmanninum Elon Musk til Auschwitz á síðasta ári hefur tjáð sig um reynslu sína. Hún ber ríkasta manni heims ekki góða söguna.

Musk hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir meinta nasistakveðju á samkomu repúblikana á mánudaginn, í kjölfar innsetningarathafnar Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna. Margir stuðningsmenn auðkýfingsins hafa komið honum til varna og sagt fásinnu að halda því fram að hann hafi heilsað að nasistasið. Musk hafi hreinlega verið að senda áhorfendum hjartað sitt með miklum tilþrifum. Máli sínu til stuðnings hafa þessir aðilar birt mynd sem var tekin af Musk í fyrra þegar hann heimsótti Auschwitz, fanga- og útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Þessi mynd á að sanna að Musk sé enginn nasisti, en gagnrýnendur hafa þó minnt á að Musk væri tæpast fyrsti nasistinn sem hefði verið í Auschwitz.

Segir Musk siðblindan

Musk heimsótti búðirnar í Póllandi í kjölfar harðrar gagnrýni á ritstýringu á samfélagsmiðli hans, X. Musk var sakaður um að gera ekkert til að stöðva þar útbreiðslu gyðingahaturs og nýnasisma. Julie Gray var með í þessari ferð ásamt manni sínum Gidon Lev. Gidon var fæddur í Tékkóslóvakíu og lifði af helförina. Julie skrifar um ferðina á Facebook:

„Ég sé að fólk er að skrifa færslur um að Elon hafi verið í Auschwitz fyrir ári síðan og þar með geti handahreyfing hans ekki verið merki um gyðingahatur. Ég var þarna líka, í fyrra með Elon. Mér finnst neyðarlegt að eiga myndir af þessu á símanum mínum. Ástin mín, Gidon Lev, var sérstakur gestur við þetta „myndatækifæri“. Við héldum á þessum tíma að þetta yrði góð vitundarvakning. Ég mun ekki deila myndunum í dag. Ég spjallaði við Elon Musk. Ég eyddi klukkutímunum með honum og gekk með honum í gegnum Auschwitz. Ég stóð við hlið hans og horfi á ógeðfelldu hárhrúgurnar, farangurinn og skóna – lýst upp með fjólubláu ljósi til varðveislu.“

Julie vill ekki deila myndunum að svo stöddu en segir: „Er Musk gyðingahatari? Gott fólk, það er í raun verra – honum er bara skítsama. Elon, faðir „X litla“ eins og hann lýsti syni sínum, sem var að frjósa úr kulda, fyrir mér. Honum er bókstaflega alveg sama. Honum fannst lítið til þessarar upplifunar koma. Fyrir Gidon og fyrir mig, að vera á þessum stað þar sem faðir hans, Ernst, lét lífið í dauðagöngu – hvort sem hann var skotinn frá vegakantinum eða bara datt niður dauður – var þetta stór stund. Elon var sama. Hann kærði sig bara um að sýna sig fyrir fjölmiðlum og svo um lífverði sína.“

Musk var víst kuldalegur og alveg sama um hvað væri að eiga sér stað. Það eina sem skipti hann máli var að líta vel út á myndum. Þegar Julie og maður hennar lögðu krans við minnisvarðann gekk Elon bara í burtu, alveg sama.

„Þetta er hver Elon Musk er. Siðblindingur í orðsins fyllstu merkingu. Að draga þær ályktanir af þessari heimsókn, að hann sé vinur gyðinga, er örvæntingafull einfeldni.“

Gyðingasamtökum misboðið

Musk hefur nú líka tekist að misbjóða gyðingasamtökunum Anti Defamation League (ADL) sem berjast gegn hatursáróðri gegn gyðingum. ADL komu Musk fyrst til varna eftir meintu nasistakveðjuna og báðu fólk um að fella enga sleggjudóma enda líklegt að Musk hafi aðeins misst stjórn á sér í gleðivímu og notað óheppilega handahreyfingu til að tjá þakklæti sitt. Eftir að Musk birti langt orðagrín um nasista á miðli sínum hafa samtökin skipt um skoðun. Það sé óforsvaranlegt að gera grín að helförinni.

Musk skrifaði orðagrín og notaði þar meðal annars nöfn þekktra nasista. Grínið missir marks ef það er þýtt yfir á íslensku svo hér verður textinn birtur á ensku:

„Don’t say Hess to Nazi accusations! Some people will Goebbels anything down! Stop Gőring your enemies! His pronouns would’ve been He/Himmler! Bet you did nazi that coming.“

Hann lauk færslunni með hláturstjákni.

Forstjóri ADL, Jonathan Greenblatt, skrifaði þá: „Við höfum sagt það hundrað sinnum áður og segjum það enn aftur: helförin var fordæmalaus illska og það er óviðeigandi og móðgandi að gera grín að henni. Helförin er enginn brandari.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hvað finnst yfirmanninum um þig? – Þetta eru merkin sem afhjúpa hann

Hvað finnst yfirmanninum um þig? – Þetta eru merkin sem afhjúpa hann
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hundruð hunda flykkjast saman árlega á heiðurshátíð

Hundruð hunda flykkjast saman árlega á heiðurshátíð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þetta eru störfin sem gera fólk óhamingjusamast

Þetta eru störfin sem gera fólk óhamingjusamast
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hvað er til ráða þegar annar flugfarþegi situr í sætinu þínu?

Hvað er til ráða þegar annar flugfarþegi situr í sætinu þínu?