Donald Trump Bandaríkjaforseti vill yfirráð Grænlands. Þessu hefur hann ítrekað lýst yfir og nú greinir Wall Street Journal (WSJ) frá því að undirbúningur sé þegar hafinn. Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur fyrirskipað leyniþjónustu sinni að auka njósnir og eftirlit á Grænlandi í tengslum við áform forsetans.
Miðillinn ræddi við tvo heimildarmenn í skjóli nafnleyndar sem segja að yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, Tulsi Gabbard, hafi sent undirmönnum sínum skilaboð í síðustu viku þar sem hún fyrirskipaði leyniþjónustunni að kynna sér betur sjálfstæðishreyfingu Grænlands sem og afstöðu Grænlendinga til mögulegs aðgengis Bandaríkjanna að auðlindum eyjunnar.
Gabbard bað leyniþjónustumenn að finna fólk í Grænlandi og Danmörku sem styður hugmyndir um innlimun Grænlands. WSJ segir að með þessum fyrirmælum sé ljóst að Bandaríkin séu að leggja grunninn að innlimun.
Gabbard sendi miðlinum yfirlýsingu fyrir birtingu fréttarinnar þar sem hún mótmælti fréttaflutningnum. „Wall Street Journal ætti að skammast sín fyrir að hjálpa útsendurum djúpríkisins að grafa undan forsetanum með því að pólitísera og leka trúnaðarupplýsingum. Þessir aðilar eru að brjóta lögin og grafa undan öryggi og lýðræði þjóðar okkar.“