Meðalhitinn í ágúst var 11 gráður á flugvellinum við Longyearbyen en það er 2,6 gráðum hærri hiti en á síðasta ári en þá var metið frá 2022 slegið. Meðalhitinn í sumar var 5 gráðum hærri en meðalhitinn á viðmiðunartímabilinu frá 1991 til 2020.
Það er mjög óvenjulegt að hitamet falli þrjú sumur í röð. „Við höfum skoðað tölur frá öllum veðurathugunarstöðvum í Noregi, þar sem mælingar hafa verið stundaðar lengi, og það hefur aldrei áður gerst að met hafi verið slegið þrjú ár í röð,“ er haft eftir Jostein Mammen, loftslagsfræðingi hjá norsku veðurstofunni, í tengslum við birtingu veðurmælinga ágúst mánaðar á vefnum met.no.
Danska ríkisútvarpið hefur eftir Sebastian Mernild að sumarið á Svalbarða sé mjög athyglisvert. „Það sem við sjáum á Svalbarða er rosalegt, þar hefur hlýnað stöðugt síðustu áratugi og þetta er sá staður á jörðinni þar sem hlýnar hraðast. Þetta er hræðileg þróun,“ sagði hann.
Það athyglisverðasta við hitamet sumarsins er að meðalhitinn í ágúst var 11 gráður við flugvöllinn í Longyearbyen en þar hafa veðurmælingar farið fram síðan 1975.
Hollenski veðurfræðingurinn Dan van den Broek, sem sérhæfir sig í veðurfari á heimskautaslóðum, segir að metið á Svalbarða þetta sumarið sé eiginlega útilokað tölfræðilega séð því líkurnar á að þetta gerist séu minni en einn á móti milljarði.