Þykir þetta til marks um þær áskoranir sem geta beðið slökkviliðsmanna þegar eldur kemur upp í rafbílum.
Eldurinn kom upp eftir að bíllinn lenti í árekstri norðaustur af borginni Sacramento í sumar. Auk þess að dæla vatni á eldinn var eldkæfandi efni sleppt á bílinn úr þyrlu.
Bíllinn sem um ræðir, Tesla Semi, er búinn mjög stórri rafhlöðu sem er margfalt afkastameiri en er til dæmis í hefðbundnari rafbílum eins og Tesla 3 eða Tesla Model S.
Í skýrslu um eldsvoðann segir að hitastigið í eldhafinu hafi náð 540 gráðum. Var vegurinn þar sem slysið varð lokaður í 15 klukkustundir þar til tryggt var að rafhlaðan væri orðin nógu köld til að óhætt væri að fjarlægja hana af vettvangi.