Igor Artamonov, ríkisstjóri Lipetsk, segir á Telegram að níu einstaklingar hafi særst í árásum Úkraínumanna í nótt og voru íbúar á nokkrum stöðum hvattir til að hafa sig á brott. Beindust árásirnar meðal annars að orkuinnviðum og birgðastöðvum fyrir hergögn.
Lipetsk-hérað er við hlið Kursk-héraðs þar sem Úkraínumenn hafa gert árásir síðustu daga, en þó lengra inni í landi en Kursk.
Úkraínski herinn réðst þar inn á þriðjudag og staðfesti Volodomír Selenskíj, forseti Úkraínu, í gær að úkraínski herinn hefði ráðist inn í Rússland. Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í vikunni að innrás Úkraínu væri alvarleg ögrun.
CNN hefur eftir heimildarmanni úr röðum úkraínska hersins að í nótt hafi verið ráðist á flugvöll í héraðinu þar sem skotfæri voru meðal annars geymd. Segir heimildarmaðurinn að þyrlur og flugvélar úkraínska hersins hafi tekið þátt í árásinni og um 700 sprengjum hafi verið varpað í aðgerðinni.
Rússneski herinn sagði í morgun að hann hefði skotið niður 75 sprengjudróna, þar af 19 yfir Lipetsk, 26 yfir Belgorod, sjö yfir Kursk og nokkra aðra yfir héröðunum Bryansk, Voronezh og Orel.
Ýmsir hafa velt fyrir sér hvað vakir fyrir Úkraínumönnum en í frétt CNN er haft eftir bandarískum og úkraínskum fulltrúum að markmiðið sé að beina athygli Rússa frá svæðum í austurhluta Úkraínu þar sem þeir rússneskar hersveitir hafa sótt fram. Annað markmið sé að ala á sundrung og ótta meðal Rússa.