Samkvæmt könnun sem stefnumótasíðan Illicit Encounters gerði, þá er algengasta yfirvarp karla fyrir framhjáhaldi að þeir séu að spila golf. 74% af þeim 2.000 sem tóku þátt í könnuninni sögðust reglulega nota golf sem yfirvarp fyrir að fara að hitta viðhaldið. Express skýrir frá þessu.
Næst algengasta yfirvarpið er að um viðskiptaferð sé að ræða, þar á eftir fylgir að viðkomandi þurfi að vinna fram eftir.
„Það getur tekið fjórar klukkustundir að spila einn hring á golfvelli og þar á eftir eru það ein til tvær klukkustundir sem fara í að drekka bjór með vinunum á eftir. Þetta þýðir að sá sem er að halda framhjá getur verið að heiman í sex klukkustundir eða lengur án þess að það veki undrun,“ sagði Jessica Leoni, sem er titluð sem sérfræðingur á þessu sviði, í samtali við Express.
„Yfirleitt spyr makinn ekki hvort þú hafir skemmt þér vel á golfvellinum, því það er ekki mjög áhugavert fyrir fólk sem spilar ekki golf. Þetta er því svo sannarlega hola í höggi þegar kemur að því að leyna framhjáhaldi,“ sagði hún.
Leon Hart, einkaspæjari, tók undir þetta og sagði að golfvöllurinn sé einn fyrsti staðurinn sem hann heimsæki þegar hann er að rannsaka meint framhjáhald.