Í grein í The New York Times benda tannlæknar á þá ávana sem valda því oftast að Bandaríkjamenn þurfa að leita til tannlæknis.
Poppkorn – Ekki tyggja poppkorn sem poppast ekki. Það að maula þennan litla harða kjarna, sem er bragðlaus og festist næstum örugglega á milli tanna, getur brotið tennur.
Ísmolar – Diana Nguyen, tannlæknir hjá Kaliforníuháskóla, segir að ísmolar eigi sök á fjölda brotinna tanna. Þegar fólk tyggur ísmola, geta komið litlar rispur í glerunginn og með tímanum geta þær þróast yfir í sprungur sem kalla síðan á rótfyllingu eða jafnvel krónu. Í verstu tilfellum getur þetta endað með því að rífa þarf tönnina úr.
Kúlupennar -Já, það er rétt, tannlæknarnir nefna kúlupenna til sögunnar. Það að naga kúlupenna getur brotið tennur.
Orkudrykkir – Tannlæknarnir segja að rannsókn hafi sýnt að orkudrykkir séu verri fyrir tennurnar en kóladrykkir því sýrustig þeirra er oft hærra. Sýran eyðir glerungnum. Það allra versta er að bíða með að kyngja orkudrykknum og láta hann liggja í munninum því þá eru tennurnar í sýrubaði. Ef fólk getur ekki sleppt því að drekka orkudrykki, þá ráðleggja tannlæknarnir því að drekka þá eins hratt og hægt er og skola síðan munninn með vatni.
Tannburstun – Tannlæknarnir ráðleggja fólki að tannbursta sig ekki skömmu eftir að það hefur drukkið orkudrykki, gosdrykki og aðra drykki með hátt sýrustig. Ástæðan er að tannburstinn getur skaðað glerunginn enn meira því tennurnar eru í sýrubaði.
Veip – Tannlæknarnir benda á að veip er ekki gott fyrir tennurnar. Það er svo sem vitað að reykingar eru ekki góðar fyrir tennurnar en margir vita eflaust ekki að veip er jafn slæmt fyrir þær.
Flúor – Tannlæknarnir hvetja fólk til að nota tannkrem með flúori.