Eftir að 13 ára stúlku var nauðgað í Queens í síðustu viku leitaði lögreglan í New York á náðir almennings til að hjálpa þeim að hafa uppi á meintum geranda.
Stúlkan hafði verið á gangi í almenningsgarði með vini sínum þegar maður vék sér að þeim, ógnaði með sveðju og tók þau með sér inn í skóg þar sem hann batt þau saman með skóreimum, braut á stúlkunni og flúði svo af vettvangi með farsíma beggja.
Lögreglan ákvað að virkja samfélagið til að hafa uppi á gerandanum. Þeim sem gætu hjálpað við að hafa uppi á gerandanum var lofað rúmlega milljón í verðlaunafé.
Þegar maður sást á götum úti í Queens sem passaði við lýsingu lögreglu tóku rúmlega tugur íbúa sig saman, yfirbuguðu manninn og héldu þar til lögreglan kom á svæðið.
Umræddur maður er Christian Inga og þurfti lögregla fyrst að flytja hann á sjúkrahús svo huga mætti að áverkum sem hann hlaut þegar íbúar yfirbuguðu hann. Ekki reyndist vera um alvarlega áverka að ræða svo Inga var fljótlega útskrifaður af sjúkrahúsi og færður í varðhald.
Hann er nú ákærður fyrir nauðgun, rán, mannrán og kynferðisbrot.
„Við erum öruggir að þessi maður sem framdi þennan hrottalega glæp sé nú í haldi,“ sagði lögreglustjórinn við blaðamenn.
Inga mun hafa sagt lögreglu að hann ætti við fíknivanda að stríða. Hann kannaðist við sjálfan sig á myndum sem lögreglan hafði birt en bar því við að hann hefði fundið sveðjuna fyrir tilviljun. Lögregla segir að þeim hafi borist fjöldi ábendinga um að Inga væri gerandinn og telja því öruggt að erfðaefni sem fannst á brotaþola og vettvangi komi heim og saman við erfðaefni sem er á skrá lögreglu eftir að Inga kom ólöglega yfir landamæri Bandaríkjanna frá Ekvador árið 2021.
Málið hefur vakið óhug þar sem þvert á það sem margir telja þá eru kynferðisbrot sjaldgæf þar sem gerandinn er brotaþola ókunnur. Aðeins um 20 prósent kynferðisbrota í Bandaríkjunum eru framin af ókunnugum og þegar brotaþolar eru ólögráða þá er gerandinn einhver sem þekkir þá í um 93 prósent tilvika.
„Við spörkuðum í rassinn á honum,“ sögðu borgarbúar í Queens fagnandi eftir að Inga ar yfirbugaður, í myndbandi sem var birt í kjölfarið. Þar sést hvar Inga er snúinn niður.