fbpx
Föstudagur 26.júlí 2024
Pressan

Sakamál: Dauði ættleiddu stúlkunnar – Óskiljanlega morðið sem skók Spán

Pressan
Sunnudaginn 19. maí 2024 22:00

Mynd: Netflix. Sýnir leikara í hlutverkum Basterra-hjónanna.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein af vinsælli þáttaröðunum á Netflix undanfarna mánuði gengur undir heitinu The Asunta Case. Um er að ræða leikna spænska þáttaröð sem fjallar um afar óvenjulegt morðmál frá árinu 2013. Þættirnir eru sérstæðir og átakanlegir rétt eins og sagan sem liggur að baki þeim.

Asunta Fong Yang var 12 gömul stúlka sem ættleidd hafði verið frá Kína. Foreldrar hennar voru þau Rosario Porto, lögmaður sem átti ríka foreldra, og Alfonso Basterra, blaðamaður í lausamennsku. Þetta var velmegandi fjölskylda, ekki síst vegna foreldra Rosario, og þetta var fjölskylda sem mátti ekki vamm sitt vita og var annt um orðspor sitt.

Kínverska stúlkan þeirra, Asunta, var sannkallað fyrirmyndarbarn. Hún skaraði fram úr í öllum námsgreinum auk þess að sinna tónmenntum og koma fram í leiksýningum skólans síns.

Fjölskyldan bjó í borginni Santiago de Compostela á Norður-Spáni. Kvöld eitt höfðu hjónin samband við lögreglu og sögðu að dóttir þeirra væri horfin. Móðirin, Rosario, hafði skilið við Asunta eftir í íbúð fjölskyldunnar í Santiago, þar sem hún var að læra fyrir skólann. Sjálf þurfti Rosario að huga að húsi fjölskyldunnar uppi í sveit. Þegar Rosario kom til baka um kvöldið var Asunta á bak og burt. Óskiljanlegt. Hún var hlýðin, dugleg stúlka, laus við uppreisnargirni og ekki til í dæminu að hún stryki að heiman. Hvað hafði orðið um hana?

Glansmynd af fullkominni fjölskyldu

Hvar var Alfonso Basterra staddur á meðan dóttir hans var að læra heima og eiginkonan hugaði að sveitasetrinu? Þar komum við að atriði sem sýnir að fjölskyldulífið var ekki jafn hamingjuríkt og foreldrar Asunta vildu láta í veðri vaka. Þau voru nefnilega skilin. Rosario hafði eftir þrábeiðnir fengið Alfonso til að undirrita skilnaðarpappíra og hann hafði flutt út. Hann hafði síðan leigt sér litla íbúð í næstu götu við gamla heimilið, til að geta verið nær dóttur sinni, og þar sagðist hann hafa haldið til allan daginn sem Asunta hvarf.

Skilnaðarástæðan var ástarsamband Rosario við giftan mann. Er Alfonso komst að sambandinu varð hann frávita af bræði og beitti Rosario ofbeldi. Hún var hins vegar orðin afhuga honum og vildi skilnað.

Þegar dóttir þeirra, Asunta, hvarf, tóku þau hins vegar höndum saman. En þau áttu grýtta leið í vændum.

Líkið finnst

Nokkrum dögum eftir hvarfið rákust tvær fyllibyttur á lík ungrar stúlku rétt utan við sveitaveg. Stúlkan hafði verið bundin á höndum og fótum með appelsínugulu snæri. Dánarorsök hennar var talin vera köfnun. Engin merki voru um að hún hefði verið beitt kynferðisofbeldi. Hins vegar fannst í líkama hennar mikið magn af kvíðalyfinu lorazepam og var það mat réttarlækna að barnið hefði tekið lyfið reglulega undanfarna þrjá mánuði.

Eftir að lögregla hafði fengið hjónin til að bera kennsl á líkið var farið með móðurina í sveitabýli fjölskyldu hennar til að sjá þar ummerki um Asunta sem dvaldist þar oft með móður sinni. Þegar þangað var komið sagðist Rosario þurfa að fara strax á salernið. Lögreglumaðurinn elti hana þangað og af skarpskyggni sinni rak hann augun í appelsínugult snæri ofan í ruslafötu, samskonar og stúlkan hafði verið bundin með.

Þetta var ekki það eina grunsamlega. Kom í ljós að Rosario hafið logið til um dvalarstað Asunta daginn sem hún hvarf. Hún sagði hana hafa verið heima íbúðinni í Santiago að læra fyrir skólann. Gögn í öryggismyndavélum sýndu hins vegar að mæðgurnar höfðu farið saman í sveitahúsið, myndirnar sýna Asunta í farþegasætinu frammi í og Rosario undir stýri.

Einnig kom í ljós að Alfonso laug til um verustað sinn þennan dag. Hann sagðist hafa varið öllum deginum á heimili sínu en stúlka sem var í danstímum með Asunta sá feðginin á göngu í verslunargötuí miðborg Santiago síðdegis þennan dag, ekki löngu fyrir ferð mæðgnanna í sveitahúsið.

Mynd: Netflix. Sýnir leikara í hlutverkum hjónanna og ættleiddu dótturinnar.

Hjónin ákærð og sakfelld

Málið vakti gífurlega athygli og varð efni í sannkallaðan fjölmiðlastorm sem heltók spænskt samfélag um skeið. Hjónin neituðu bæði sök en gátu ekki gefið skýringar á lygum sínum né útskýrt hvers vegna mikið magn af kvíðalyfinu lorazepam fannst í líkama stúlkunnar. Ekki tókst þeim heldur að koma með trúverðugar skýringar miklum magnkaupum sínum á lyfinu úr lyfjaverslunum. Ennfremur greindi tónlistarkennari Asunta frá því að stúlkan hefði sagt henni að móðir hennar gæfi henni oft inn hvítt duft. Talið var að Rosario myldi töflurnar niður í duft.

Þau voru sakfelld á grundvelli óbeinna sönnunargagna og bæði dæmd í 18 ára fangelsi árið 2016. Rosario tók eigið líf í fangelsinu nokkrum árum síðar en Alfonso afplánar enn.

Enn þann dag í dag veltir fólk vöngum yfir því hvers vegna í ósköpunum þau myrtu dóttur sína. Talið var að Rosario hefði gefið henni inn mikið af lyfinu áðurnefnda og síðan kæft hana með púða. Þvínæst bundið hana á höndum og fótum, borið hana út í bíl, ekið með hana í burtu og skilið líkið eftir nálægt sveitavegi. En Rosario var smágerð kona og þó að Asunta væri ekki þung var talið ólíklegt að Rosario hefði gert þetta á eigin spýtur. Því var það kenning lögreglu og saksóknara að Alfonso hefði verið með í för þó að öryggismyndavélagögn sýndu hann ekki í bílnum. Var talið að hann hefði lagst niður í aftursætið.

Enn þann dag í dag veltir fólk vöngum yfir því hvers vegna í ósköpunum þau myrtu dóttur sína. Ein kenning lögreglunnar er sú að þau hafi viljað þaggað niður hneyksli vegna þess að Asunta var farin að tala um lyfjagjafirnar. En þær eru líka óskiljanlegar – hvers vegna gáfu hjónin þægri og spakri dóttur sinni, þessu fyrirmyndarbarni, reglulega sterk kvíðalyf? Ein möguleg skýring er sú að þau hafi viljað hana kvöldsvæfa svo þau gætu farið út. Rosario átti í ástarsambandi við annan mann og lögreglan gaf sér að Alfonso vendi komur sínar á vafasama staði, en byggði það á fremur ótraustum heimildum.

Málið er því í raun enn ráðgáta þó að morðingjarnir hafi verið sakfelldir. Enn þann dag í dag veit enginn hvers vegna þetta barn var myrt. Mögulegar ástæður morðsins eru einungis vangaveltur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Ævintýraferðin breyttist í martröð – Hjónin fundust látin í björgunarbát sex vikum síðar

Ævintýraferðin breyttist í martröð – Hjónin fundust látin í björgunarbát sex vikum síðar
Pressan
Fyrir 5 dögum

Sakamál: Hryllingur í smábæ – Dóttirin stumraði yfir líki móður sinnar

Sakamál: Hryllingur í smábæ – Dóttirin stumraði yfir líki móður sinnar
Pressan
Fyrir 1 viku

Einn eftirlýstasti strokufangi Bandaríkjanna sigldi undir fölsku flaggi í 30 ár

Einn eftirlýstasti strokufangi Bandaríkjanna sigldi undir fölsku flaggi í 30 ár
Pressan
Fyrir 1 viku

Árásarmaðurinn ætlaði sér ekki að deyja

Árásarmaðurinn ætlaði sér ekki að deyja
Pressan
Fyrir 1 viku

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“
Pressan
Fyrir 1 viku

Ökumaður Teslubifreiðar lenti í árekstri og missti stjórn á bílnum í kjölfarið – Sjáðu magnað myndband

Ökumaður Teslubifreiðar lenti í árekstri og missti stjórn á bílnum í kjölfarið – Sjáðu magnað myndband
Pressan
Fyrir 1 viku

600 ára gamall texti líkist vel þekktum texta frá síðari tímum

600 ára gamall texti líkist vel þekktum texta frá síðari tímum
Pressan
Fyrir 1 viku

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?