Veggurinn var 14,5 km í upphafi og náði í kringum Khaybar vinina. Hann var um 5 metrar á hæð og 1,7 til 2,4 metrar á breidd.
Á veggnum voru 180 varðstöðvar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að veggurinn var reistur á árunum 2250 til 1950 fyrir Krist. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem hefur verið birt í vísindaritinu Journal of Archaelogical Science: Reports.
Talið er að veggurinn hafi verið notaður í nokkrar aldir áður en notkun hans var hætt. Í dag er um 5,9 km eftir af veggnum og 74 af varðstöðvunum.
Líklega lágu nokkrar ástæður að baki byggingu veggsins. Ein þeirra er að hann hafi verið notaður til að verjast árásum hirðingja. Þetta sagði Guillaume Charloux, aðalhöfundur rannsóknarinnar, við Live Science.
Í rannsókninni kemur einnig fram að fólkið sem reisti vegginn hafi hugsanlega einnig notað hann til að marka yfirráðasvæði sitt og vernda sig gegn skyndiflóðum.