Fox News skýrir frá þessu og segir að maðurinn hafi viljað komast til Eistlands. Hann náði að komast í gegnum öryggishlið á vellinum og hlaupa að flugvélinni og tókst næstum því að komast inn í flugstjórnarklefann áður en hann var handtekinn.
Vélin var nýlent þegar maðurinn réðst til inngöngu í hana. Þegar hann hljóp að henni voru lögreglumenn á hælum hans. Flugvallarstarfsmaður reyndi að stöðva hann þegar hann nálgaðist vélina en maðurinn hrinti honum um koll og meiddist starfsmaðurinn.
Maðurinn komst um borð í vélina, ýtti flugfreyju að hurðinni að flugstjórnarklefanum og „kramdi“ hönd annarrar flugfreyju sem reyndi að læsa hurðinni að flugstjórnarklefanum.
Eftir að lögreglumenn höfðu handtekið hann byrjaði hann að sögn að hrópa að hann „þyrfti að komast til Eistlands því slæmt fólk hefði sagt honum að fljúga vélinni þangað“.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald en getur losnað úr því með því að greiða hálfa milljón dollara í lausnargjald.