Þegar Obie Williams heyrði í dóttur sinni, hinni 27 ára gömlu Kobe Williams, í síðustu viku heyrði hann barnsgrátur og lætin í veðrinu fyrir utan heimili hennar. Þetta reyndist vera í síðasta skipti sem hann heyrði í hljóðið í henni og barnabörnum sínum.
Fellibylurinn Helena reið yfir Bandaríkin í síðustu viku og olli gríðarlegu tjóni í suðausturríkjum landsins. Að minnsta kosti 215 eru látnir eftir fellibylinn og margra enn saknað og því viðbúið að tala látinna muni hækka umtalsvert á næstu dögum og vikum.
Kobe Williams var búsett í bænum Thomson, tiltölulega strjálbýlu svæði í Georgíuríki, ásamt tvíburunum sínum, Khyzier og Khazmir, sem komu í heiminn fyrir rúmum mánuði. Þau létust öll þegar tré féll á hjólhýsi þeirra í fellibylnum.
Obie segir við bandaríska fjölmiðla að hann hafi hvatt dóttur sína til að leita skjóls inni á baðherbergi hjólhýsisins. Þegar hann reyndi að heyra í henni aftur skömmu síðar svaraði hún ekki ítrekuðum símhringingum.
Khyzier og Khazmir komu í heiminn þann 20. ágúst síðastliðinn og eru þeir yngstu fórnarlömb fellibylsins sem vitað er um.