Málum af þessu tagi fer nú fjölgandi og hugmyndaríkir svikahrappar halda ekki aftur af sér í tilraunum sínum til að verða sér úti um fé.
Lögreglan afhjúpaði nýlega hóp ítalskra svikahrappa sem höfðu blekkt vínkaupmenn um allan heim. Er hætt við að fórnarlömbunum hafi svelgst á rauðvíninu sínu þegar þau fréttu af málinu.
Það var franska lögreglan sem var í forystuhlutverki í málinu en hún naut aðstoðar kollega sinna í Sviss og Ítalíu og einnig kom Evrópulögreglan Europol að málinu.
Svikahrapparnir höfðu árum saman selt vín sem átti að vera sannkallað lúxusvín þrátt fyrir að svo væri ekki. Högnuðust þeir um tugi milljóna á þessu.
Þeir framleiddu sitt eigið rauðvín og sögðu það vera franskt. Þeir seldu síðan vínkaupmönnum það og greiddu þeir sem svarar til allt að 2,5 milljóna íslenskra króna fyrir flöskuna. Þetta er auðvitað svívirðilega hátt verð fyrir vín og þá sérstaklega fyrir vín sem er fjarri því að vera í þeim gæðaflokki sem svikahrapparnir sögðu. Það var ekki einu sinni franskt.
Lögreglan gerði húsleit á 14 stöðum í Tórínó og Milanó og lagði hald á mikið magn muna, þar á meðal mikið af vínflöskum sem voru merktar Grand Cru en það merki vísar til vínakra eða vínframleiðenda, aðallega í Frakklandi, sem framleiða vín í mjög háum gæðaflokki. Yfirleitt er þetta vín frá Bordeaux eða Bourgogne.
Einnig var lagt hald á miða á vínflöskurnar, vélar til að setja tappa í flöskur og annað sem tengist áfyllingu. Þá var lagt hald á lúxusvarning og raftæki að verðmæti sem svarar til rúmlega 200 milljóna króna og 15 milljónir í reiðufé. Einnig var lagt hald á skjöl sem sýna hvernig svikahrapparnir báru sig að við þetta allt saman.
Sex voru handteknir, þar á meðal fertugur rússneskur ríkisborgari sem hafði verið undir smásjá lögreglunnar vegna sölu á fölsuðu víni. Hann er talinn vera leiðtogi glæpagengisins.
Talið er að gengið hafið haft sem nemur um 300 milljónum íslenskra króna upp úr krafsinu. BBC skýrði frá þessu.