Rauðir eldmaurar, Solenopsis invicta, geta eyðilagt uppskeru, stungur þeirra eru öflugar og þeir fara oft inn í raftæki, þar á meðal bíla og tölvur.
Þessi tegund er talin ein mest eyðileggjandi ágenga tegundin. Hún getur mjög hratt myndað „ofurbú“ með mörgum drottningum. Maurarnir lifa á hryggleysingjum, stórum hryggdýrum og plöntum. Þeir eyðileggja plöntur og hafa betur gegn öðrum maurategundum í baráttunni um mat.
Rauðir eldmaurar eru í fimmta sæti yfir þær ágengu tegundir sem valda mestum skaða. Þeir berast með vörum á milli heimsálfa. Þeir eru upprunnir í Suður-Ameríku og bárust þaðan til Mexíkó, Karíbahafsins, Ástralíu og Bandaríkjanna þar sem tjón af þeirra völdum er metið á um 6 milljarða dollara á ári.
Vísindamenn fundu 88 bú rauðra eldmaura á 5 hektara svæði nærri Syracuse á Sikiley. Samkvæmt niðurstöðum erfðafræðirannsóknar, sem hefur verið birt í Current Biology, þá eru þessir maurar líklega frá Kína eða Bandaríkjunum.