Fyrir næstum fjörutíu árum síðan vakti hrottalegt morðmál töluverða athygli í franska bænum Lanvallay. Það var í október árið 1986 þegar heilt bæjarfélag fór á hliðina eftir að tveir breskir kennarar fundnu látnir á kornakri. Þau höfðu verið bundin, kefluð og tekin af lífi.
Hin látnu voru Paul Bellion og Lorraine Glasby sem bæði létust eftir að hafa verið skotin einu skoti aftan á hálsinn. Þau voru stödd í fríi í Frakklandi, eins og þau höfðu gert áður. Þau voru trúlofuð og það seinasta sem fjölskylda þeirra vissi af þeim var að væru að eiga draumafríið sitt – eins og þau sögðu í bréfum heim. Þegar þau skiluðu sér svo ekki heim til Bretlands á áætluðum tíma urðu fjölskyldur þeirra skelfdar og létu lýsa eftir þeim.
Þegar veiðimaður nokkur fór svo út á akrana ásamt hundi sínum lauk leitinni snarlega. Þar rakst veiðirmaðurinn á líkamsleifar kennarana sem höfðu legið þar í um mánuð.
Bæði líkin voru klæðalaus að ofan og höfðu verið bundin saman, bak við bak. Hendur þeirra höfðu eins verið bundnar og þau höfðu verið kefluð með límbandi.
Leit á svæðinu skilaði engum vísbendingum um hvað hefði átt sér stað. Eigur þeirra voru horfnar, engin hreifing á bankareikningum, og ávísanir sem þau höfðu haft á sér voru aldrei leystar út. Ástand líkanna var svo slæmt að ekki var hægt að meta hvort að kynferðislegt ofbeldi hefði átt sér stað fyrir eða eftir andlátið, og ekkert gaf nokkra vísbendingu um hvaða ásetningur lá að baki morðunum.
Nokkrum dögum síðar fannst gulur Volkswagen bíll í nágrenninu, en honum hafði verið stolið frá Þýskalandi skammt frá vettvangi glæpsins. Erfðaefni úr Paul fannst í bílnum, en ekkert annað. Málið var svo sett á ís árið 1991 og formlega lokað árið 2006. Enginn hefur verið ákærður og enginn sakborningur til staðar.
Nú virðist þó heyra til tíðinda en teymi innan lögreglunnar, sem tekur að sér svokölluð köld mál, hefur boðað að rannsókn sé hafin að nýju, en ekki er ljóst á hvaða grundvelli þessi draugur hefur verið vakinn upp á.
Ein kenning um málið hefur þó verið þrálát. Fyrrum lögreglumaðurinn Pascal Huche fékk málið á heilann á sínum tíma þó hann hafi aldrei verið formlega hluti af rannsókn þess. Hann hefur bent á að í málinu hafi lögregla yfirheyrt belgískan mann með langan sakaferil og þessi sami maður var árið 2008 sakfelldur í Belgíu fyrir þrefalda morðtilraun, þar sem hann beitti riffli. Kennurunum tveimur var einmitt banað með riffli og það sem meira var þá hafði Belginn stundað það að ræna eldri borgara og einmitt bundið þá með svipuðum hætti og með svipuðum tólum og líkin á kornakrinum.
Enn á eftir að ná réttlætinu fram í málinu, en fjölskyldur hinna látnu eygja nú smá von eftir að það var opnað að nýju.