Myndin var frumsýnd fyrir nokkrum dögum á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og þar mætti fortíðin augum nútímans því fólk vildi vita hvort þau hefðu stundað kynlíf þegar Priscilla var aðeins 14 ára.
„Hann var vingjarnlegur, mjög blíður, mjög ástríkur. En hann virti einnig þá staðreynd að ég var bara 14 ára,“ sagði Priscilla, sem var mjög snortin, á fréttamannafundi að sögn people.com. Er hún sögð hafa verið við það að byrja að gráta á fréttamannafundinum.
Hún er orðin 78 ára en minningin um hina stóru ást í lífi hennar lifir í huga hennar.
Myndin er byggð á ævisögu Priscilla „Elvis and Me“ sem kom út 1985. Sagan er sögð út frá sjónarhóli Priscilla og að sögn gagnrýnenda er ekki reynt að leyna hinum mikla aldursmun á Elvis og Priscilla, heldur ekki kynferðislegri ágengni hans gagnvart henni, skapi hans né hversu stjórnsamur hann var.
Elvis var á hátindi ferilsins þegar hann var sendur til Þýskalands 1958 til að gegna herskyldu. Þar hitti hann Priscilla í herstöðinni í Wiesbaden en stjúpfaðir hennar var staðsettur þar. Hann var allt annað en sáttur þegar hún kom mjög seint heim kvöld eitt eftir að hafa verið í partýi hjá Elvis. „Þú mátt aldrei aftur hitta hann,“ sagði stjúpfaðirinn. En eins og kunnugt er þá fór það nú ekki svo.
„Það var erfitt fyrir foreldra mína að skilja að Elvis hefði áhuga á mér og af hverju. Ég held að það hafi verið af því að ég var góð í að hlusta. Elvis létti á hjarta sínu við mig. Hann talaði um allt: það sem hann óttaðist, drauma sína, móðurmissinn sem hann jafnaði sig aldrei á,“ sagði Priscilla á fréttamannafundinum í Feneyjum.