fbpx
Miðvikudagur 09.október 2024
Pressan

Er þetta Tara á myndinni? Hefur verið týnd síðan 1988

Pressan
Föstudaginn 15. september 2023 04:07

Tara til vinstri en er þetta einnig hún til hægri?

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þriðjudaginn 20. september 1988 hjólaði Tara Calico, 19 ára, að heiman frá sér um klukkan 09.30. Að vanda lá leið hennar með fram New Mexico State Road 47 í Belen, sem er í Valencia County í Nýju-Mexíkó. Um 7.400 manns búa í Belen.

Áður en Tara lagði af stað samdi hún við móður sína, Patty Doel, að hún myndi sækja hana um hádegisbilið ef hún væri ekki komin heim. Það gat sprungið á hjólinu hennar eða eitthvað annað gat komið upp á sem kæmi í veg fyrir að nú næði tímanlega heim. Hún ætlaði líka að spila tennis með kærastanum sínum klukkan 12.30.

Tara fékk bleika fjallahjól Patty lánað og brunaði af stað þessa 55 km leið sem hún hjólaði oft. Það tók hana venjulega nokkrar klukkustundir. Hún var með föt meðferðis og Sony vasadiskó, heyrnartól og segulbandsspólu með hljómsveitinni Boston.

Eftir að hún lagði af stað heyrðist aldrei aftur frá henni.

Þegar Tara skilaði sér ekki heim, ók Patty af stað eins og þær höfðu samið um. Hún ók með fram leiðinni, sem hún þekkti vel því þær höfðu oft hjólað hana saman. Patty hafði þó hætt að hjóla þessa leið eftir að ökumaður einn hafði elt þær þegar þær voru eitt sinn í hjólatúr. Eftir það atvik ráðlagði hún Tara að verða sér úti um piparúða, en það vildi Tara ekki gera.

Patty fann Tara ekki og af þeim sökum hringdi hún í lögregluna þegar hún kom heim. Lögreglan hóf strax að leita að Tara.

Þetta var upphafið á einu umtalaðasta óupplýsta mannshvarfinu sem bandaríska lögreglan glímir við.

Myndin

Síðdegis þann 20. september fundu lögreglumenn vasadiskó Tara og spóluna. En hvorki hjólið né nokkuð annað henni tengt fannst. Vitni töldu sig hafa séð ljósan pallbíl, sem var ekið á eftir Tara þegar hún hjólaði með fram New Mexico State Road 47.

En meira gerðist ekki í málinu. Tara var algjörlega horfin. Kenning lögreglunnar var að henni hefði verið rænt en það var líka eiginlega það eina sem lögreglan hafði til að vinna út frá.

Þar til níu mánuðum síðar.

Þá fannst polaroidmynd á bílastæði við matvöruverslun í Port St. Joe í Flórída. Á myndinni voru ung kona og lítill drengur. Þau voru kefluð með límbandi og hendur þeirra bundnar fyrir aftan bak. Konan var í gráum stuttermabol og svörtum stuttbuxum en drengurinn var í ljósleitum stuttermabol. Við hlið konunnar lá bókin „My Sweet Audrina“ eftir V.C Andrews.

Myndin dularfulla.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Talið var að myndin hefði dottið úr sendiferðabíl. Konan sem fann hana sagði að ökumaður sendibifreiðarinnar hafi verið maður á fertugsaldri með yfirvararskegg.

Lögreglan lokaði vegum í kringum Port St. Joe en fann ekki manninn með yfirvararskeggið.

Myndin var birt í sjónvarpsþættinum „A Current Affair“ og þeirri spurningu var velt upp hvort þetta væri Tara á myndinni? Það töldu margir vina Patty sem höfðu samband við hana eftir að þeir sáu þáttinn.

Patty hitti lögregluna í kjölfarið til að skoða myndina nánar. Hún var sannfærð um að það væri Tara sem var á myndinni. Meðal þess sem sannfærði hana um það var ör á fótlegg konunnar en Tara var með slíkt ör eftir bílslys. V.C. Andrews var einnig uppáhaldshöfundur Tara.

 

Myndin var rannsökuð af fagmönnum. Scotland Yard taldi 85% líkur á að þetta væri Tara á myndinni. Los Almos National Laboratory komst hins vegar að gagnstæðri niðurstöðu. FBI rannsakaði hana einnig en komst ekki að neinni niðurstöðu um hvort þetta væri Tara.

Auk þessarar myndar fundust tvær aðrar polaroidmyndir sem voru taldar tengjast hvarfi Tara.

Önnur var frekar óskýr en á henni var kona með límband fyrir munninum. Efnið í bakgrunninum var svipað og efnið á fyrstu myndinni. Filman, sem myndin var tekin á, kom ekki á markað fyrr en í júní 1989 og því gat myndin ekki hafa verið tekin fyrr.

Á hinni myndinni var kona bundin og augu hennar hulin. Við hlið hennar er maður sem kennsl hafa aldrei verið borin á. Því var slegið föstu að myndin hafi verið tekin í járnbrautarlest. Filman, sem þessi mynd var tekin á, kom ekki á markað fyrr en í febrúar 1990.

Málið sem vill ekki deyja

En ekkert annað nýtt kom fram í málinu og Tara var úrskurðuð látin 1998. Þar sem engin sönnunargögn lágu fyrir kvað dómari upp þann úrskurð að hún hefði tekið eigið líf.

En málið vildi ekki deyja þrátt fyrir þetta.

Árið 2008 taldi Rene Rivera, lögreglustjóri í Valencia County, að hann hefði fundið þá sem rændu Tara. Tveir heimildarmenn höfðu sagt honum að tveir ungir menn hefðu reynt að ná Tara og hafi þeir ekið um á pallbifreið. Þeir voru sagðir hafa ekið á hana fyrir slysni þegar þeir voru að reyna að ná henni.

Á þessari auglýsingu frá FBI er Tara sýnd á þremur aldursskeiðum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Samkvæmt þessum upplýsingum höfðu ættingjar mannanna hjálpað þeim að leyna þessu. En þar sem engar frekari sannanir lágu fyrir gat Rivera ekki gert meira í málinu.

Því hefur einnig verið velt upp að annar mannanna sé sonur lögreglumanns en það hefur aldrei fengist staðfest.

FBI hét 20.000 dollurum í verðlaun fyrir upplýsingar sem gætu orðið til þess að málið leystist. Þetta var gert 2019 og um leið birti FBI mynd af hvernig Tara gæti litið út ef hún væri enn á lífi.

Svona gæti Tara litið út ef hún er enn á lífi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Patty lést 2006 og náði aldrei að sjá dóttur sína aftur. Yngri systir Tara hefur ekki gleymt málinu og reynir að halda því lifandi í þeirri von að Tara finnist svo hægt verði að veita henni verðuga útför og ná réttlætinu fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Stúlkan með rauða sjalið þjökuð af sektarkennd ári eftir harmleikinn

Stúlkan með rauða sjalið þjökuð af sektarkennd ári eftir harmleikinn
Pressan
Fyrir 2 dögum

Vaknaði við leðurblöku í herberginu – Lést úr skelfilegum sjúkdómi nokkrum dögum síðar

Vaknaði við leðurblöku í herberginu – Lést úr skelfilegum sjúkdómi nokkrum dögum síðar
Pressan
Fyrir 3 dögum

30.000 ára gamlar beinagrindur veita mikilvægar upplýsingar

30.000 ára gamlar beinagrindur veita mikilvægar upplýsingar
Pressan
Fyrir 3 dögum

Myndir sem voru teknar rétt áður en hörmungar dundu yfir

Myndir sem voru teknar rétt áður en hörmungar dundu yfir