fbpx
Fimmtudagur 21.september 2023
Pressan

Játaði íkveikju sem varð sex börnum hennar að bana árið 1992 – Versti glæpurinn í sögu borgarinnar

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 14. september 2023 21:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eldsvoði á heimili á East Eager Street í Baltimore í Bandaríkjunum 7. júlí árið 1992 hefur lengi verið talinn versti glæpurinn í sögu borgarinnar. Sex systkini létust í brunanum; Damien tveggja mánaða, Gregory og Takie tveggja ára, Deon þriggja ára, Russell Williams Jr. sjö ára og  Antoine Lucas tólf ára. Fjögur þeirra létust í brunanum og tvö þeirra á sjúkrahúsi af sárum sínum. Kærasti móður barnanna náði að bjarga sjöunda systkininu William Lucas átta ára. Móðirin bjargaði sjálfri sér með því að stökkva út um glugga á annarri hæð.

Á þriðjudag samþykkti dómari sátt í málinu og var móðir barnanna, Tonya Lucas, 59 ára, dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir glæpi sína  Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Lucas kemur fyrir rétt vegna dauða barna hennar. Árið 1993 var hún fundin sek um sex morð af fyrstu gráðu, eftir að í ljós kom að hún kveikti af ásettu ráði í heimili fjölskyldunnar, og var hún dæmd til að sitja af sér sex lífstíðardóma.

„Þetta er án efa, að okkar mati, einn versti glæpur sem framinn hefur verið í sögu borgarinnar Baltimore, vegna þess að við erum ekki bara með sex látna heldur erum við með sex látin börn sem gátu ekkert gert við misnotkuninni og vanrækslunni sem þau voru beitt,“ sagði saksóknari við dómsuppkvaðningu árið 1993.

Aftur fyrir dóm 22 árum seinna

Sakfellingin byggði hins vegar á brunarannsóknartækni sem talin var úrelt. Dómari við héraðsdómstólinn í Baltimore ógilti því sakfellingu Lucas árið 2015 og fór mál hennar aftur fyrir dóm. Saksóknarar fóru fram á að Lucas yrði dæmd fyrir manndráp og íkveikju. Lucas hélt hins vegar fram sakleysi sínu og var á tímabili sleppt úr fangelsi og sætti stofufangelsi meðan hún gekkst undir krabbameinsmeðferð árið 2016.  Réttarhöld yfir henni árin 2017 og 2019 enduðu með því að kviðdómendur komust ekki að samhljóma niðurstöðu og létu dómarar mál hennar falla niður.  Eftir réttarhöldin árið 2017 sagði þáverandi lögmaður hennar að níu kviðdómendur hefðu greitt atkvæði með sýknudómi.

Tonya Lucas árið 2017.

Talin hafa kveikt í til að fela vanrækslu í uppeldi

Í upphafi réttarhaldanna yfir Lucas 2017 sagði saksóknari við kviðdóminn að kvöldið fyrir brunann hafi Lucas talað við nágranna sína í kjallaranum um hvernig hægt væri að forða sér úr eldsvoða.

Ákæruvaldið sagði jafnframt að Lucas og fjölskylda hennar hafi átt yfir höfði sér útburð af heimilinu árið 1992. Hún hafi því kveikt í af ásettu ráði til að hylma yfir þá staðreynd að sonur hennar, Gregory sem var tveggja ára, var vanræktur. Drengurinn var sagður hafa verið „hræðilega afmáður“ og „leit út eins og beinagrind,“ í ræðu saksóknara fyrir dómi. „Þessi börn, lífi þeirra var útrýmt fyrir 25 árum með gjörðum móður þeirra. Lífi þeirra var stolið frá þeim,“ sagði saksóknari í málinu árið 2017.

Eitt vitni, nágranni Lucas, hélt því fram að Lucas hafi boðist til að gefa sér munnmök fyrir 10 dollara. Peningana átti Lucas að hafa notað til að kaupa fíkniefni og hélt vitnið því fram að Lucas hafi sagt sér að hún hygðist kveikja í húsi sínu þar sem hún ætti á hættu að verða borin út. Vitnið  hélt því einnig fram að hann hafi séð Lucas sprauta vökva og kveikja eld í stofunni.

Lögmaður hafnaði því að bera ætti fjölskylduna út því Lucas hefði á þeim tíma notið fjárhagsaðstoðar frá hinu opinbera. Lögmaður hennar gerði jafnframt lítið úr vitnisburði nágrannans og benti á úreltar aðferðir við brunarannsóknir.

„Lucas var kannski óhæf móðir, en hún kveikti ekki í húsi sínu,“ sagði lögmaður hennar við upphaf réttarhaldanna árið 2017.

Í fjórða sinn fyrir dóm

Sex árum síðar fór mál Lucas aftur fyrir dómstóla. Og síðastliðinn þriðjudag samþykkti Lucas dóm um eina ákæru vegna íkveikju og sex morð af fyrstu gráðu vegna dauða barna hennar.og féllst á lífstíðarfangelsi að frádregnum þeim tíma sem hún hefur þegar setið í fangelsi, 23 ár auk stofufangelsisins, en Lucas hafði fengið reynslulausn fram að dómi (e. pretrial release).  Hún neitaði að tjá sig fyrir dómi meðan dómari úrskurðaði um refsingu hennar.

„Það þýðir ekkert fyrir mig að halda einhvers konar refsingarfyrirlestur í þessu máli,“ sagði Robert K. Taylor Jr. dómarinn í málinu á þriðjudag. „Ásakanirnar hér eru þær hræðilegustu sem ég hef séð sem dómari. Ég ætla að trúa því að þú sért ekki sama manneskja í dag og þú varst fyrir 31 ári síðan.“

„Fjölskyldan telur að hún hafi afplánað refsinu vegna glæpa sinna,“ sagði James Bentley, talsmaður ríkissaksóknara Baltimore, við The Baltimore Sun. „Fjölskyldan sagði við hana að henni væri fyrirgefið, en hún hefði ekki gleymt málinu. Fjölskyldan þyrfti hins vegar á lokun að halda í málinu.“

„Þetta var hörmulegt ástand sem hefði aðeins leitt til meiri skaða ef fröken Lucas hefði þurft að þola fimmtu réttarhöldin,“ sagði lögmaður Lucas. „Hver ​​réttarhöld hafa tekið gríðarlegan andlegan og líkamlegan toll af fröken Lucas, sem glímir við brjóstakrabbamein. Með þessari niðurstöðu getur hún snúið aftur út í samfélagið haldið áfram að fá bestu læknismeðferð sem völ er á og er hlíft við að endurupplifa áfallið vegna eldsvoðans og andláts sex barna hennar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Miðstöð ofbeldis í nágrenni Gatwick

Miðstöð ofbeldis í nágrenni Gatwick
Pressan
Fyrir 2 dögum

Heimsókn Kim Jong-un til Pútíns er lokið

Heimsókn Kim Jong-un til Pútíns er lokið
Pressan
Fyrir 3 dögum

Óhugnanlegur fundur í kjallara húss í Póllandi

Óhugnanlegur fundur í kjallara húss í Póllandi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Danmörk – Ung kona grunuð um að hafa myrt nýfætt barn sitt

Danmörk – Ung kona grunuð um að hafa myrt nýfætt barn sitt
Pressan
Fyrir 4 dögum

Át skemmdan fisk og missti alla útlimi

Át skemmdan fisk og missti alla útlimi
Pressan
Fyrir 4 dögum

Læknir varar við þessari hegðun í sturtu og segir þetta geta valdið alvarlegum vanda

Læknir varar við þessari hegðun í sturtu og segir þetta geta valdið alvarlegum vanda