Samkvæmt fréttum þarlendra fjölmiðla fundust líkin í holu í eldhúsinu heima hjá manninum í Kigali, sem er höfuðborg Rúanda. Maðurinn, sem er 34 ára, er talinn hafa lokkað fórnarlömbin með sér heim frá ýmsum börum í úthverfi höfuðborgarinnar.
Fjölmiðlar í Rúanda segja að líkin séu fleiri en tíu og heimildarmaður innan lögreglunnar sagði að fórnarlömbin séu minnst 14.
Thierry Murangira, sem stýrir rannsókninni, vildi ekki skýra frá fjölda fórnarlambanna og sagði að það muni koma í ljós við rannsóknir réttarmeinafræðinga.
Hinn grunaði var fyrst handtekinn í júlí, grunaður um rán og nauðgun. Hann var látinn laus vegna skorts á sönnunargögnum að sögn lögreglunnar.
Hann var síðan handtekinn á þriðjudag í síðustu viku í tengslum við rannsókn lögreglunnar á málum hans. Í kjölfar handtökunnar fundust líkin heima hjá honum.
Heimildarmaður innan lögreglunnar sagði að maðurinn hafi viðurkennt að hafa lært að myrða með því að sjá hvernig þekktir raðmorðingjar gerðu það. Heimildarmaðurinn sagði einnig að búið hafi verið að setja sum líkin í sýrubað.
Fórnarlömbin eru bæði karlar og konur. Flest höfðu þau viðurværi sitt af vændi.