fbpx
Fimmtudagur 28.september 2023
Pressan

Rútuferðin sem breytti heiminum

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 26. maí 2023 20:30

Zhuang Zedong og Glenn Cowan landsliðsmenn Kína og Bandaríkjanna í borðtennis

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í byrjun apríl 1971 stóð yfir heimsmeistaramótið í borðtennis sem fram fór í Nagoya í Japan. Meðal þátttakenda á mótinu voru keppendur frá Kína. Það kemur eflaust ekki mörgum á óvart þar sem Kínverjar hafa löngum verið meðal fremstu þjóða heims í borðtennis.

Þátttaka Kínverja á mótinu vakti þó enn meiri athygli en hún hefði gert undir venjulegum kringumstæðum þar sem þeir höfðu ekki verið með síðan 1965 eftir að borðtennis hafði verið bannaður um tíma í Kína. Banni var sett á í hinni svokölluðu menningarbyltingu en hún gekk í megindráttum út á að viðhalda kommúnismanum í Kína með því hreinsa öll áhrif kapítalisma og annarra borgaralegra fyrirbrigða úr samfélaginu.

Kommúnistar höfðu náð völdum í Kína árið 1949 og breytt landinu í alþýðulýðveldi en þegar komið var fram á sjöunda áratuginn þótti leiðtoga þeirra, Mao Zedong, sem hafði dregið sig nokkuð í hlé, menn hafa slakað full mikið á klónni. Menningarbyltingin fór því af stað og einkenndist af miklu umróti, hertum reglum um ýmislegt og fjölda dauðsfalla.

Mynd úr menningarbyltingunni/Wikimedia

Borðtennis þótti of borgaralegur, hugsanlega af því hann var fundinn upp í Bretlandi, og var þar af leiðandi bannaður.

Bannið var hins vegar að lokum afnumið og kínverskir keppendur héldu ótrauðir til keppni á heimsmeistaramótinu 1971.

Óvæntur gestur um borð í rútunni

Eins og títt er um keppni á heimsmeistaramótum gisti kínverska liðið á ákveðnum stað, æfði á öðrum og ferðaðist með rútu þar á milli. Eftir æfingu einn daginn hélt liðið beinustu leið um borð í rútuna. Áður en rútan keyrði af stað steig hins vegar maður um borð í hana sem augljóst þótti að tilheyrði ekki kínverska hópnum.

Maðurinn var einn af keppendum Bandaríkjanna á mótinu og hét Glenn Cowan. Æfingastaður bandaríska liðsins var ekki fjarri þeim kínverska en Cowan hafði verið svo niðursokkinn í sínar æfingar að hann missti af rútu bandaríska liðsins og ákvað þá að fá far með rútu þess kínverska.

Cowan var á nítjánda ári, síðhærður hippi og þótti hæfilega kærulaus af íþróttamanni að vera. Hann áttaði sig því kannski ekki fyllilega á því að það var ekki sjálfsagt mál fyrir Bandaríkjamann að fá far með rútu fullri af Kínverjum.

Þegar Cowan fékk sér sæti kom nokkuð fát á kínverska hópinn. Það var vel skiljanlegt í ljósi samskipta ríkjanna. Eftir að hreyfing kommúnista náði völdum í Kína viðurkenndu bandarísk stjórnvöld ekki stjórn þeirra og litu á stjórn þjóðernissinna á Taiwan, sem hafði hrakist þangað frá meginlandi Kína eftir sigur kommúnista, sem réttmæta ríkisstjórn Kína.

Ekkert stjórnmálasamband var á milli Kína og Bandaríkjanna og síðarnefnda landið stóð fyrir alþjóðlegu viðskiptabanni gegn því fyrrnefnda. Ríkisborgarar hvors ríkis höfðu ekki leyfi til að heimsækja hitt. Bandaríkjamönnum var kennt að kommúnistar væru ekki af hinu góða og Kínverjum var uppálagt að Bandaríkjamenn væru vondir heimsvaldasinnar.

Það var því í raun óhjákvæmilegt að kínversku keppendurnir væru tortryggnir gagnvart bandaríska gestinum. Raunar höfðu þeir fengið þær leiðbeiningar fyrir mótið að forðast öll samskipti við bandarísku keppendurna.

Einn maður ákveður að taka vel á móti gestinum

Einn keppandi úr kínverska hópnum ákvað hins vegar að það færi best á því að sýna hinum bandaríska keppanda vinsemd og virðingu. Zhuang Zedong nálgaðist Cowan, heilsaði honum með handabandi og ræddi við hann með aðstoð túlks. Þeir ræddu m.a. heimsmeistaramótið sjálft, dvölina í Japan og æskuslóðir hvors annars.

Eftir því sem samræðunum vatt fram og ferðin á áfangastað styttist komst Zedong að þeirri niðurstöðu að Cowan væri hinn vænsti náungi og í samræmi við kínverskar venjur yrði hann að gefa þeim bandaríska góða gjöf. Með gjöfinni vildi Zedong styrkja þessi nýju vináttubönd.

Svo vildi til að hann var með í fórum sínum silkiprentaða mynd af Huangshan fjallgarðinum, sem staðsettur er í Anhui héraði í austurhluta Kína, og ákvað að gefa Cowan myndina.

Gjöfin snart Glenn Cowan og hann leitaði í ofboði að einhverju sem hann hafði meðferðis og gæti gefið Zedong til að endurgjalda gjöfina. Hann fann þó ekkert betra en greiðu og sagði við Zedong: „Ég get ekki gefið þér greiðu.“ Hlógu Zedong, Cowan og túlkurinn allir dátt.

Þegar rútan kom á áfangastað steig Cowan úr rútunni ásamt Zedong og öðrum úr kínverska hópnum. Hópur blaðamanna beið eftir rútunni til að fylgjast með ferðum kínverska liðsins og það vakti strax athygli þeirra að Cowan hefði fylgt því. Zedong og Cowan voru myndaðir saman og ljóst var að um stóra frétt væri að ræða. Myndirnar af þeim voru birtar um allan heim.

Zedong og Cowan hittust aftur daginn eftir og þá gat sá síðarnefndi loks endurgoldið gjöfina. Cowan gaf Zedong bol með friðartákninu framan á, í fánalitum Bandaríkjanna, hvítum, bláum og rauðum og með titli Bítlalagsins Let It Be.

Zhuang Zedong og Glenn Cowan við síðari gjafaskiptin

Blaðamenn voru viðstaddir þessi síðari gjafaskipti og Cowan var spurður hvort hann hefði áhuga á að fara í heimsókn til Kína. Cowan svaraði að hann væri alveg til í að heimsækja hvaða land sem hann hefði ekki komið til áður þar með talið Kína.

Myndirnar koma hreyfingu á málin

Fyrir mótið hafði bandaríska borðtennislandsliðið óskað eftir að heimsækja Kína og leika nokkra sýningarleiki. Þeirri ósk var snarlega hafnað.

Sagt er að sjálfur Mao hafi séð myndirnar af Cowan og Zedong og ákveðið að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Á hann að hafa sagt að Zedong væri ekki aðeins góður í borðtennis heldur einnig í utanríkismálum og hefði rétta hugarfarið fyrir stjórnmál. Bandaríska liðinu var í kjölfarið boðið til Kína.

Þann 10. apríl 1971 hélt bandaríski hópurinn fótgangandi yfir brú sem skildi að Hong Kong, sem þá var undir yfirráðum Bretlands, og Kína. Glenn Cowan var þar á meðal. Hópur blaðamanna fylgdist með og það var ekki laust við taugatitring í bandaríska hópnum. Það þóttu sannarlega söguleg tíðindi að hópur Bandaríkjamanna væri að sækja Kína heim.

Fulltrúar bandarískra stjórnvalda hittu hópinn áður en hann hélt til Kína ekki síst til að breyta vegabréfum allra í hópnum. Strika þurfti yfir viðvörun, sem á þeim tíma var sett í bandarísk vegabréf, um að viðurlög lægju við því að heimsækja ríki sem væru undir yfirráðum kommúnista.

Engin vandamál komu upp í ferðinni og kínversk stjórnvöld lögðu sig sérstaklega fram við að taka vel á móti bandaríska hópnum. Þúsundir áhorfenda fylgdust með sýningarleikjunum og þeim bandarísku þótti oft sem að hinir kínversku mótherjar væru alls ekki að spila af fullu krafti á móti þeim. Fannst gestunum í mörgum tilfellum eins og að þeim væri leyft að vinna.

Bandaríski hópurinn ásamt kínverskum leiðsögumönnum/Getty

Borðtennis veitti svigrúm fyrir sáttavilja

Í raun kom heimsóknin, sem spratt af þessum óvæntum samskiptum Cowan og Zedong, á hárréttum tíma fyrir samskipti Kína og Bandaríkjanna. Það var gagnkvæmur vilji hjá ráðamönnum ríkjanna að bæta samskiptin.

Bandaríkin sáu fyrir sér að bætt samskipti við Kína gætu styrkt stöðu þeirra gagnvart Sovétríkjunum og einnig nýst þeim í samningum við Norður-Víetnam vegna hinna langvarandi stríðsátaka í Víetnam. Samskipti Kína og Sovétríkjanna höfðu farið versnandi og kínverskir ráðamenn sáu fyrir sér að bætt samskipti við Bandaríkin gætu veitt þeim aukið vogarafl í samskiptunum við Sovétríkin.

Þrátt fyrir þennan gagnkvæma vilja áttu ráðamenn beggja ríkja erfitt með að koma auga á tækifæri til að stíga fyrstu skrefin í átt að bættum samskiptum. Samræður Zedong og Cowan og heimsókn bandaríska borðtennislandsliðsins til Kína í kjölfarið veitti hins vegar tilvalið tækifæri til að stíga þessi skref.

Sagt var frá heimsókninni í bandarískum fjölmiðlum og myndir frá henni birtar. Banni á ferðir kínverskra ríkisborgara til Bandaríkjanna var fljótlega eftir það aflétt. Richard Nixon, forseti Bandaríkjanna, var mjög áhugasamur um að bæta samskiptin og sendi Henry Kissinger, sinn helsta ráðunaut í utanríkismálum, til viðræðna við kínversk stjórnvöld.

Þær viðræður enduðu með opinberri heimsókn Nixon til Kína í febrúar 1972. Eftir heimsóknina tilkynntu stjórnvöld beggja ríkja að þau myndu koma á gagnkvæmum samskiptum en viðurkenndu um leið að þau væru ekki sammála að öllu leyti.

Nixon og Mao hittast/Getty

Bandaríkin viðurkenndu stjórn kommúnista í Kína og réttmæti hennar á alþjóðavettvangi. Viðskiptum var smám saman komið á milli ríkjanna sömuleiðis stjórnmálasambandi og bandarískum ferðamönnum var leyft að heimsækja Kína.

Breyttur heimur

Kína sem hafði að miklu leyti verið lokað land opnaðist eftir þetta upp á gátt fyrir heiminum. Landið fór að taka fullan þátt í heimsviðskiptum og færa sig í auknum mæli til kapítalisma. Staða Kína í heiminum fór með tímanum að styrkjast og völd þess á alþjóðavettvangi hafa farið vaxandi eftir að það opnaði á samskipti við Bandaríkin.

Samningar Bandaríkjanna og Kína áttu líka þátt í að setja aukinn þrýsting á Sovétríkin og gera þau viljugri til að semja við Bandaríkin. Eflaust má halda því fram að staða Sovétríkjanna hafi orðið í kjölfarið veikari en það er efni í aðra umfjöllun.

Samband Bandaríkjanna og Kína hefur vissulega ekki verið í fullkomnum blóma síðan að Richard Nixon sótti fyrstur Bandaríkjaforseta kínverskra ráðamenn heim. Samskipti ríkjanna eru flókin og í dag nokkuð stirð og þau heyja baráttu, óvopnaða enn sem komið er, um völd og áhrif í heiminum. Hvernig sem menn meta samskiptin í dag er þó staðreyndin sú að þau gerbreyttust árunum 1971-72 og það hafði áhrif um allan heim.

Það er þar af leiðandi hægt að slá því föstu að rútuferð Glenn Cowan með kínverska landsliðinu í borðtennis í byrjun apríl 1971 og samræður hans og Zhuang Zedong, í ljósi þeirra atburða sem gerðust í kjölfarið, hafi átt stóran þátt í að breyta ekki bara Bandaríkjunum og Kína heldur öllum heiminum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Morðin á vinunum fjórum skóku þjóðina – „Hún var föst“

Morðin á vinunum fjórum skóku þjóðina – „Hún var föst“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ákærð fyrir að myrða manninn sem hún kærði fyrir nauðgun

Ákærð fyrir að myrða manninn sem hún kærði fyrir nauðgun
Pressan
Fyrir 3 dögum

Marsbíllinn Perseverance bjó til súrefni

Marsbíllinn Perseverance bjó til súrefni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Flugvallaröryggisvörður gleypti stolna peningaseðla – Staðhæfir að þetta hafi verið súkkulaði

Flugvallaröryggisvörður gleypti stolna peningaseðla – Staðhæfir að þetta hafi verið súkkulaði
Pressan
Fyrir 4 dögum

Svarthol gæti verið miklu nær jörðinni en við höldum

Svarthol gæti verið miklu nær jörðinni en við höldum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Menntaskólanemar gerðu merka uppgötvun – Óvænt hegðun sem NASA vissi ekki af

Menntaskólanemar gerðu merka uppgötvun – Óvænt hegðun sem NASA vissi ekki af
Pressan
Fyrir 5 dögum

400 kg krókódíll gæti hafa verið 90 ára þegar hann var drepinn

400 kg krókódíll gæti hafa verið 90 ára þegar hann var drepinn
Pressan
Fyrir 5 dögum

Sex „Hermenn Krists“ handteknir fyrir misþyrmingar og morð

Sex „Hermenn Krists“ handteknir fyrir misþyrmingar og morð