Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem hafa verið birtar í The Annals of Internal Medicine, þá tengist kaffidrykkja, í réttu magni, lægri dánartíðni. The New York Times skýrir frá þessu.
Fram kemur að hjá fólki sem drekkur einn og hálfan til þrjá og hálfan bolla af kaffi á dag sé dánartíðnin 30% lægri en hjá þeim sem ekki drekka kaffi. Þetta er byggt á gögnum um 170.000 einstaklinga á aldrinum 37 til 73 ára en rannsóknin náði yfir sjö ár. Lýðfræði, lífsstíll og mataræði voru voru mikilvægir þættir við gerð rannsóknarinnar.
En áður en þú stekkur hæð þína í loft og fagnar því að nú sértu búin(n) að komast að leyndardómnum á bak við langlífi er rétt að staldra aðeins við. Christina Wee, ritstjóri The Annals of Internal Medicine, segir að eitt vandamál sé við rannsóknina því ekki sé hægt að draga beina ályktun um að kaffi eitt og sér dragi úr líkunum á andláti. Ástæðan er að ekki var um samanburðarrannsókn að ræða, aðeins var fylgst með þeim sem drekka kaffi og upplýsingar um þá nýttar. Aðrir þættir geti einnig komið við sögu að sögn Wee. Til dæmis geti verið að þeir sem drekka kaffi lifi almennt heilbrigðara lífi en aðrir og lifi því lengur.
En samt sem áður er hún mjög spennt yfir niðurstöðunni. „Það er fátt sem getur dregið úr dánarlíkunum um 30%,“ sagði hún.