fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Pressan

Svarti sauður Kennedyfjölskyldunnar – Við elskum Robert en hann tekur þátt í banvænni herferð

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 18. maí 2021 22:00

Robert F. Kennedy Jr er einarður andstæðingur bólusetninga. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við elskum Robert F. Kennedy Jr. en hann tekur þátt í herferð, þar sem röngum upplýsingum er dreift, sem getur haft hræðilegar og banvænar afleiðingar,“ svona hófst bréf sem þrír úr hinni heimsþekktu bandarísku Kennedyfjölskyldu skrifuðu í Politico Magazine 2019.

Robert F. Kennedy Jr. er sonur Robert F. Kennedy, dómsmálaráðherra, sem var myrtur 1968. Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur verið sem vatn á myllu Kennedy Jr. því hann er einarður andstæðingur bólusetninga og lætur mikið að sér kveða á þeim vettvangi. Hann hefur ítrekað gagnrýnt bóluefni og bólusetningar.

Það voru Kathleen Kennedy Townsend og Joseph P. Kennedy II, systkini hans, og frænka hans Maeve Kennedy McKean sem skrifuðu fyrrgreint bréf í Politico Magazine 2019. Þá barðist Kennedy Jr. á móti bólusetningum gegn mislingum.

Sjúkdómnum hafði nær verið útrýmt í Bandaríkjunum um aldamótin en síðan seig á ógæfuhliðina og 2019 voru um 700 smit staðfest á fyrstu mánuðum ársins. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO mat það sem svo að um 110.000 manns létust á heimsvísu af völdum mislinga ár hvert. Í tengslum við umfjöllun um mislinga létu ættingjar Kennedy Jr. hann heyra það og gagnrýndu hann fyrir þátttöku hans í baráttunni gegn bóluefnum og dreifingu rangra upplýsinga um þau.

„Við elskum Bobby. Hann er ötull baráttumaður í umhverfismálum . . . Við styðjum baráttu hans til verndar náttúrunni. En hvað varðar bóluefni, þá hefur hann rangt fyrir sér,“ skrifuðu þau meðal annars.

Kennedy Jr. fundaði með Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, í ársbyrjun 2017 um bóluefni og hvatti hann til að setja nefnd á laggirnar til að rannsaka hversu örugg bóluefni eru. Frá 2014 hefur nafn hans verið tengt við nokkrar bækur sem beinast gegn bóluefnum og dreifa ósannindum og rangfærslum um þau.

Hann er virkur á samfélagsmiðlum en Instagram hefur lokað aðgangi hans en hann er með aðganga á bæði Facebook og Twitter þar sem nokkur hundruð þúsund manns fylgja honum.

Rannsókn, sem var gerð 2019, sýndi að hann lék lykilhlutverk á Facebook hvað varðar að sá efasemdum um bóluefni. Hann stóð þá á bak við tvo stærstu hópana sem dreifa lygum og áróðri gegn bóluefnum.

Föðurbróðir hans, John F. Kennedy, kom því í gegn í forsetatíð sinni að bólusetningar á skólabörnum hófust. Robert F. Kennedy eldri var baráttumaður fyrir bólusetningum þegar hann var dómsmálaráðherra. Því telja margir að Kennedy Jr. sé svarti sauðurinn í fjölskyldunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt