Lucia DeClerck, 105 ára kona í New Jersey-fylki í Bandaríkjunum, greindist með Covid-19, aðeins degi eftir að hafa fengið seinni bólusetningu sína gegn veirunni. Hún fékk þó afar væg einkenni en eftir tvær vikur var hún búin að sigrast á veirunni og aftur byrjuð að prjóna. The Guardian greinir frá.
Hún segir lykilinn að þessum sigri á veirunni og hestaheilsu hennar vera það sem hún borðar á hverjum morgni. Hún borðar nefnilega níu rúsínur sem hún hefur lagt í bleyti í gini á hverjum einasta morgni og hún segir það vera hvað hjálpaði henni í gegnum veikindin.
Hún fyllir krukku af rúsínum, hellir gini út í og lætur standa í níu daga áður en hún byrjar að borða þær. Hún hefur vakið mikla athygli innan fylkisins eftir að hafa losað sig við veiruna og hefur meðal annars fundað með ríkisstjóra New Jersey en hann sagði spjall þeirra hafi verið mjög uppbyggjandi.