fbpx
Mánudagur 06.maí 2024
Pressan

Erfiður vetur í uppsiglingu með kórónuveirunni – „Maður lifir hættulegu lífi sem óbólusettur í vetur“

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 9. nóvember 2021 05:59

Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kórónuveirufaraldurinn er í sókn víðast hvar í Evrópu og í mörgum ríkjum er verið að herða sóttvarnarreglur og reynt er að fá fleiri til að láta bólusetja sig. Telja sumir að bólusetning sé eina leiðin til að koma í veg fyrir fjölda andláta og öngþveiti á sjúkrahúsum. Við þetta bætast svo áhyggjur af hinni árlegu inflúensu sem er nú þegar komin til Evrópu.

Staðan er mjög mismunandi á milli landa en óhætt er að segja að staðan sé svört að mörgu leyti í Evrópu. Verst er staðan í austanverðri álfunni þar sem líkhús eru mörg hver yfirfull og sjúkrahúsin ráða ekki við álagið. Eins og DV skýrði frá í gær þá er búið að flytja 18 unga Rúmena, sem þarfnast gjörgæslumeðferðar, til meðferðar á þýskum og dönskum sjúkrahúsum til að létta örlítið á rúmenska heilbrigðiskerfinu. Í síðustu viku var dapurlegt met sett í Rúmeníu þegar rúmlega 600 manns létust á einum degi af völdum COVID-19. „Þetta ástand er verra en nokkuð annað. Þetta er eins og stríð,“ sagði yfirmaður sjúkrahúss í Búkarest í samtali við New York Times.

Í gær bárust mjög slæmar fréttir frá mörgum ríkjum, til dæmis Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi. Í sumum ríkjum fer smitum fjölgandi og í öðrum eiga sjúkrahúsin erfitt með að annast alla þá sem þarfnast umönnunar. Þýsk stjórnvöld íhuga nú að byrja aftur að bjóða upp á ókeypis sýnatökur og hvetja eldra fólk til að fá þriðja skammtinn af bóluefni. Væntanleg ríkisstjórn, með jafnaðarmenn í fararbroddi, hefur hingað til hafnað kröfum um að fólki verði gert skylt að láta bólusetja sig en spurningin er hvort sú afstaða breytist því samkvæmt því sem Deutsche Welle segir þá hefur sú breyting orðið að í fyrsta sinn er meirihluti landsmanna hlynntur því að bólusetning verði gerð að skyldu en 57% styðja það.

Í Frakklandi lágu 6.865 COVID-19-sjúklingar á sjúkrahúsum í gær og höfðu þá 156 bæst við á einum sólarhring. Svo margir hafa ekki lagst inn á sjúkrahús síðan í ágúst. 1.141 er á gjörgæsludeild. Emmanuel Macron, forseti, mun ávarpa þjóðina í dag vegna stöðunnar. Hann mun að sögn meðal annars ræða um þörfina á að fólk eldra en 65 ára fái þriðja skammtinn af bóluefni sem fyrst en aðeins helmingurinn hefur nýtt sér tilboð um það fram að þessu. Í mörgum grunnskólum er búið að taka upp grímuskyldu á nýjan leik en aðeins er rúmlega mánuður síðan henni var aflétt.

Í Noregi liggja 198 COVID-19-sjúklingar á sjúkrahúsum og hefur fjöldi þeirra tæplega tvöfaldast á tveimur vikum. 49 eru á gjörgæsludeildum, 21 í öndunarvél.

Í Danmörku verður væntanlega tekin ákvörðun í dag um að faraldurinn verði aftur skilgreindur sem samfélagsleg ógn en það er forsenda fyrir því að hægt sé að grípa til sóttvarnaaðgerða. Mette Frederiksen, forsætisráðherra, ávarpaði þjóðina í gærkvöldi og sagði að ríkisstjórnin hafi sent erindi um þetta til farsóttarnefndar þingsins. Þess er vænst að nefndin fundi í dag. Ríkisstjórnin, sem er minnihlutastjórn, þarf að treysta á að ekki sé meirihluti á móti tillögu hennar um skilgreiningu faraldursins og er ekki annað að sjá en að meirihluti nefndarmanna styðji erindið. Þá verður strax gripið til þess ráðs að krefja fólk um kórónupassa þegar það sækir veitingastaði, kvikmyndahús, fjölmennar samkomur, bari, næturklúbba og álíka staði.  Síðustu fimm daga hafa rúmlega 2.000 smit greinst á dag. Fjöldi innlagðra COVID-19-sjúklinga hefur þrefaldast á þessum tíma en nú liggja 303 á sjúkrahúsum.

Frederiksen hvatti landsmenn til að láta bólusetja sig og Søren Brostrøm, landlæknir, skóf ekki utan af hlutunum á fréttamannafundinum í gær: „Maður lifir hættulegu lífi sem óbólusettur í vetur,“ sagði hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Óttast að ISIS láti til skarar skríða í Svíþjóð vegna Eurovision

Óttast að ISIS láti til skarar skríða í Svíþjóð vegna Eurovision
Pressan
Í gær

Merk uppgötvun í 100 ára ómerktri gröf í kirkjugarði við geðsjúkrahús

Merk uppgötvun í 100 ára ómerktri gröf í kirkjugarði við geðsjúkrahús
Pressan
Fyrir 2 dögum

Dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir ofbeldi gegn fjórum kærustum sínum – Ein man bragðið af byssuhlaupinu

Dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir ofbeldi gegn fjórum kærustum sínum – Ein man bragðið af byssuhlaupinu
Pressan
Fyrir 2 dögum

Bankabækur Dana tútna út

Bankabækur Dana tútna út
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ertu að taka inn lyf að staðaldri? – Þá er þetta gott að hafa í huga

Ertu að taka inn lyf að staðaldri? – Þá er þetta gott að hafa í huga
Pressan
Fyrir 4 dögum

Amma á níræðisaldri sögð vera harðsvíraður okurlánari

Amma á níræðisaldri sögð vera harðsvíraður okurlánari