fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Pressan

Miklar vangaveltur um dauða Lars Vilks – Slys eða morð?

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 6. október 2021 06:59

Frá slysstað. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðdegis á sunnudaginn lenti ómerktur lögreglubíll í árekstri við flutningabíl á E4 hraðbrautinni nærri Markaryd í Svíþjóð. Í lögreglubílnum var listamaðurinn Lars Vilks ásamt tveimur lögreglumönnum sem önnuðust öryggisgæslu hans en hann naut sólarhringsverndar lögreglunnar. Vilks og lögreglumennirnir létust í árekstrinum. Ekki eru allir sannfærðir að um slys hafi verið að ræða og vísa þar til að margir vildu Vilks feigan.

Það kviknaði í lögreglubílnum við áreksturinn. Ökumaður flutningabílsins slasaðist alvarlega. Lögreglubíllinn var enginn venjulegur lögreglubíll heldur sérsmíðaður 4,5 tonna brynvarinn bíll með dekkjum sem áttu að vera ósprengjanleg.

Miðað við vegsummerki þá virðist lögreglubíllinn skyndilega hafa sveigt út af akreininni, farið í gegnum vírgirðingu á milli akbrauta og lent framan á flutningabílnum.

Á vettvangi voru bremsuför og leifar af hjólbörðum lögreglubílsins. Það er þetta sem gæti varpað ljósi á hvernig slysið átti sér stað.

Á fréttamannafundi á mánudaginn sögðu yfirmenn lögreglunnar að þeir teldu ekki að um tilræði eða morð hefði verið að ræða, þetta hefði verið slys. Þeir vildu þó ekki útiloka neina möguleika. Í upphafi beindist rannsókn lögreglunnar að hvort dekk hefði sprungið á lögreglubílnum en þau áttu ekki að geta sprungið.

Vilks hafði notið verndar lögreglunnar síðan 2007 en þá birti hann teikningu af spámanninum Múhameð í hundslíki. Í kjölfarið hótuðu öfgasinnaðir múslimar honum lífláti og þrisvar sinnum var reynt að myrða hann.

Fyrrum lífvörður Vilks tjáði sig um málið við Sænska ríkisútvarpið og sagðist telja að hér hafi verið um hörmulegt slys að ræða. Bílarnir, sem séu notaðir, séu skoðaðir reglulega og aldrei séu léleg dekk undir þeim. „En ímyndaðu þér að þú sér að aka margra tonna ökutæki og framhjólið springur. Ég held ekki að neinn bílstjóri geti bjargað sér úr slíku,“ sagði hann.

Aftonbladet segir að þegar horft var yfir slysstaðinn frá nærliggjandi brú hafi sést að fimm staurar, sem vírinn lá í gegnum, hafi rifnað upp og að bremsuför á veginum hafi sýnt leið lögreglubílsins yfir á öfugan vegarhelming. Blaðið segir að 50 metrum fyrr á veginum, miðað við akstursstefnu lögreglubílsins, hafi vírar á milli akbrautanna verið ónýtir á 10 metra kafla. Erfitt sé að skýra það því bílflökin hafi verið tugum metra frá þessum stað og ekki sé að sjá ökutækin hafi getað eyðilegt vírinn á þessum stað. Ekki sé þó útilokað að vírinn þarna hafi eyðilagst við ákeyrslu ökutækja lögreglu og slökkviliðs sem komu á vettvang. Lögreglan hefur ekki tjáð sig um þetta atriði.

Annar lögreglubíll fylgdi bílnum, sem Vilks var í, eftir en lögreglumennirnir í honum sáu ekki þegar slysið átti sér stað, þeir voru töluvert langt fyrir aftan sagði talsmaður lögreglunnar á fréttamannafundinum á mánudaginn.

Nokkur vitni urðu að slysinu. Þar á meðal Norman Korkis sem ók rétt fyrir aftan flutningabílinn. Expressen hefur eftir honum að bílstjóri flutningabílsins hafi reynt að víkja en það hafi ekki tekist og því hafi slysið orðið.

Nokkur vitni hafa sagt að lögreglubílnum hafi verið ekið mjög hratt eða á um 160 km/klst. Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um þetta.

Múhameðsteiknarinn Lars Vilks lést í gær ásamt tveimur lögreglumönnum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Tíu ára drengur játar á sig morð: Var sjö ára þegar hann framdi voðaverkið

Tíu ára drengur játar á sig morð: Var sjö ára þegar hann framdi voðaverkið
Pressan
Fyrir 2 dögum

Blaðamaðurinn Terry Anderson látinn – Gekk í gegnum margra ára martröð

Blaðamaðurinn Terry Anderson látinn – Gekk í gegnum margra ára martröð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Gríðarstórt eldfjall á Mars var fyrir „allra augum“ og gæti geymt ummerki um líf

Gríðarstórt eldfjall á Mars var fyrir „allra augum“ og gæti geymt ummerki um líf
Pressan
Fyrir 2 dögum

Orrustan um Bretland

Orrustan um Bretland
Pressan
Fyrir 3 dögum

Áður óþekktar lífverur fundust við neðansjávarfjall við Páskaeyju – Myndband

Áður óþekktar lífverur fundust við neðansjávarfjall við Páskaeyju – Myndband
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ferðin til Mallorca endaði með nokkurra daga hryllingi og björgunaraðgerð á flugvelli í Afríku

Ferðin til Mallorca endaði með nokkurra daga hryllingi og björgunaraðgerð á flugvelli í Afríku