Vísindamennirnir segjast nú hafa þróað ákveðinn ramma fyrir viðbrögð við yfirvofandi árekstri jarðarinnar og loftsteins. Ramminn á að hjálpa til við að velja hvaða leið verður fyrir valinu til að koma í veg fyrir árekstur.
Þann 13. apríl 2029 mun stór loftsteinn fara mjög nærri jörðinni okkar. Hann nefnist 99942 Apophis eftir egypska slönguguðinum Apep, sem er guð ringulreiðarinnar. Loftsteinninn mun fara framhjá jörðinni á 108.000 km/klst en braut hans mun liggja á milli jarðarinnar og tunglsins. Af þekktum stórum loftsteinum er Apophis sá sem kemst næst því að rekast á jörðina á þessari öld.
Í grein, sem birtist í Acta Astronautica nýlega, nota vísindamennirnir „ákvörðunartökukort“ til að leggja mat á hvaða aðferð muni gagnast best til að forða árekstri við Apophis og Bennu (sem er annar loftsteinn sem fer nærri jörðinni).
Vísindamennirnir frá MIT nota massa, hraða og fjarlægð loftsteinanna auk áhrifa þyngdarafls jarðarinnar til að meta líkurnar á hvort og þá hvenær þeir munu rekast á jörðina. Þeir settu einnig inn breytur um hversu langur tími líður frá því að loftsteinar uppgötvast þar til þeir rekast á jörðina. Allir þessir þættir og breytur eiga að vera grunnurinn að ákvarðanatöku um hvernig sé best að koma í veg fyrir árekstur.