Lögreglan vonast til að niðurstöður DNA-rannsóknanna geti komið að gagni við rannsókn málsins. Tommy Brøske, sem stýrir rannsókninni, staðfesti í samtali við VG að lögreglan hafi fengið niðurstöður DNA-rannsókna og að enn séu niðurstöður að berast. VG segir að lífsýnin hafi fundist á ýmsum hlutum á heimili Hagen-hjónanna.
Ekki er þó öruggt að niðurstöðurnar leiði til þess að málið leysist en Brøske sagði að hugsanlega þurfi að afla fleiri lífsýna í framtíðinni. Hann sagðist enn bjartsýnn á að lögreglunni takist að leysa málið.
Lögreglan komst að því hvernig skóm mögulegur gerandi var í, einnig fundust hótunarbréf, umslag og fleira sem lífsýni fundust á. Einnig voru tekin lífsýni af persónulegum munum Anne-Elisabeth. Lögreglan veit nú hvar margir þessara muna voru keyptir.
VG segir að lögreglunni hafi ekki enn tekist að tengja þessa muni við einn ákveðinn aðila og því hafi henni ekki enn tekist að ná ótvíræðum árangri sem geti leitt til handtöku.