Fimm dauðsföll af völdum veirunnar hafa verið staðfest á Ítalíu en þar hafa yfir 200 manns greinst. Fjögur ný tilfelli hafa verið staðfest í Bretlandi og þá hafa yfirvöld í Íran miklar áhyggjur af útbreiðslu veirunnar þar. Fullyrt hefur verið að 50 manns hafi látist af völdum veirunnar í borginni Qom. Írönsk yfirvöld segja að sú tala sé röng, 12 hafi látist og 66 smitast. Í morgun voru fyrstu tilfelli veirunnar staðfest í Írak, Kúveit og Barein.
Góðar fréttir bárust þó frá kínversku stórborgunum Peking og Sjanghæ í morgun en engin ný tilfelli veirunnar greindust í gær.
Hunter segir við Independent að þessi útbreiðsla geri það að verkum að líkurnar á heimsfaraldri séu mun meiri en þær voru fyrir helgi. Veiran dreifi sér nú hraðar en við ráðum við. Þó að nýjum tilfellum væri að fækka í Kína, þar sem útbreiðslan byrjaði, valdi tölur helgarinnar ákveðnum áhyggjum – þá sérstaklega á Ítalíu. Hann á von á því að útbreiðslan þar eigi eftir að aukast talsvert á næstu dögum.
Þá segir hann í samtali við breska blaðið Guardian að fjöldi tilfella í Íran valdi áhyggjum í Mið-Austurlöndum. Beinast áhyggjurnar af innviðum ríkja á þessu svæði og getu þeirra til að ráða við veiruna og útbreiðslu hennar. Yfirvöld í Pakistan brugðust skjótt við um helgina og lokuðu landamærunum að Íran. Þá hafa yfirvöld í Jórdaníu bannað ferðamönnum frá Kína, Íran og Suður-Kóreu að koma til landsins.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir við BBC að glugginn til að ná tökum á veirunni sé að lokast.
Robin Thompson, farsóttafræðingur við Oxford-háskóla, segir að tvöföldun hafi orðið í tilfellum á Ítalíu frá föstudegi til sunnudags. Mjög mikilvægt sé að fara að ráðum sérfræðinga til að hefta frekari útbreiðslu og setja sjúklinga strax í sóttkví þegar upp kemur grunur um smit.