Clare Wenham, prófessor í alþjóðaheilbrigðismálum við London School of Economics, sagði í samtali við The Guardian að bandarískir farþegar skipsins hafi fengið að fara frá borði og út á flugvöll til að fljúga heim. Ef það hafi verið talið öruggt, af hverju hafi ekki allir aðrir um borð fengið að yfirgefa skipið og vera í einangrun á einhverjum öðrum stað. Þarna vísaði hún til þess að um 340 bandarískir ríkisborgarar fengu að yfirgefa skipið og fara til Bandaríkjanna þar sem þeir eru í einangrun.
Roojin Habibi, lögmaður sem sérhæfir sig í alþjóðaheilbrigðismálum, tók í sama streng. Hann sagði einangrunina vera rauntímatilraun sem hafi gert Diamond Princess að „potti þar sem vírussmit sjóða“.
Skipið kom til Yokohama í Japan þann 3. febrúar og hefur verið í einangrun síðan. Það virðist þó ekki hafa komið í veg fyrir að fólk um borð smitist. Ástæðan fyrir að skipið var sett í einangrun er að farþegi, sem fór frá borði í Hong Kong, greindist með smit.