Talið er að 9,8 milljónir manna hafi smitast af mislingum á síðasta ári en það er 29% fleiri en árið á undan. Þau lönd sem hafa orðið verst úti eru Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, Líbería, Madagaskar, Sómalía og Úkraína. Tæplega helmingur dauðsfallanna átti sér stað í þessum löndum.
Þessa dagana er það litla eyríkið Samóa í Kyrrahafinu sem er helst í fréttum vegna mislingafaraldurs en þar hafa 60 manns látist af völdum sjúkdómsins að undanförnu, flest fórnarlömbin eru ung börn. Um 200.000 manns búa á Samóa.
Í skýrslu WHO kemur fram að flest fórnarlömbin á síðasta ári hafi verið yngri en fimm ára. Þau eiga mest á hættu að smitast. Flestir ná sér á um einni viku en margir látast. Samkvæmt úttekt WHO hafa bólusetningar við mislingum nánast staðið í stað í tæplega áratug.