fbpx
Föstudagur 10.júlí 2020
Pressan

Hin fullkomna tilraunaborg – 125 fá gefins pening á hverjum mánuði: „Fólk heldur að þeir sem fái þessa peninga vinni ekki”

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 20. október 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Borgin Stockton í Kaliforníu hefur verið að fikra sig áfram með hugmyndina um borgaralaun síðan í febrúar á þessu ári. 125 íbúar sem þéna undir meðallaunum í borginni hafa fengið fimm hundruð dollara á mánuði, rúmlega sextíu þúsund krónur, til að eyða í það sem þeir vilja. Eins og áður segir tilheyrir þetta fólk tekjulægsta hópnum í Stockton, en meðallaun í borginni eru 46 þúsund dollarar á ári, rétt tæplega sex milljónir króna.

Þetta verkefni hefur verið kallað Stockton Economic Empowerment Demonstration, eða SEED, en gengur í stórum dráttum út á hugmyndina um borgaralaun, þá hugmynd að óbreyttir borgarar fái mánaðarlegar greiðslur án kvaða frá hinu opinbera. Tilgangurinn er að létta fjárhagsáhyggjur borgara og bæta líkamlega og andlega heilsu.

Ýmislegt gengið á Í Stockton búa um þrjú hundruð þúsund manns. Mynd: Wikimedia Commons

Mest fer í mat

Áætlað er að verkefnið verði prófað í átján mánuði og nú, átta mánuðum eftir að það hófst, eru fyrstu vísbendingar um afraksturinn komnar í ljós. Þessir fimm hundrað dollarar eru millifærðir inn á debetkort einstaklinganna og því getur hið opinbera fylgst að miklu leyti með í hvað peningurinn fer. Af þessum 125 manneskjum sem fá borgaralaun eru 43 prósent útivinnandi og 20 prósent öryrkjar og ekki í vinnu. Aðeins 2 prósent eru atvinnulaus en 11 prósent hafa börn eða aldraða ættingja á framfæri.

Samkvæmt niðurstöðum opinbers eftirlits fer stór partur af borgaralaununum, eða 40 prósent, í mat. Tæplega 12 prósent af laununum fara í reikninga og 9 prósent í útgjöld tengd rekstri bifreiðar. Um 24 prósentum er eytt í alls kyns varning í stórmörkuðum. Rest fer í skemmtun, læknisheimsóknir og tryggingar. Það sem skekkir niðurstöðurnar eitthvað er að 40 prósent af laununum voru tekin út í hraðbanka eða færð á annan reikning. Því treysta eftirlitsmenn á skýrslur þeirra borgara sem taka þátt til að átta sig fyllilega á því í hvað peningurinn fer.

Borgin varð gjaldþrota

Það má segja að Stockton sé fullkomin tilraunaborg fyrir verkefni eins og borgaralaun, því miður. Um þrjú hundruð þúsund manns búa í borginni, sem er í nokkurra klukkustunda akstursfjarlægð frá glamúrnum og auðnum í Silíkondalnum. Samfélagið í Stockton samanstendur af ýmsum kynþáttum og er talið að rúmlega 22 prósent íbúa lifi undir fátæktarmörkum, helmingi fleiri en meðaltalið yfir öll Bandaríkin, þar sem talið er að rúmlega 11 prósent lifi undir fátæktarmörkum að meðaltali. Þá eru meðallaun rúmlega milljón lægri í Stockton en meðallaun í Bandaríkjunum.

Stockton fór afar illa út úr efnahagshruninu og meðfylgjandi hruni á húsnæðismarkaðnum. Voru borgaryfirvöld sökuð um óráðsíu í fjármálum og árið 2012 varð Stockton stærsta borgin í Bandaríkjunum til að verða gjaldþrota. Borgin hefur náð sér að einhverju leyti upp úr efnahagslægðinni en stendur samt sem áður afar illa.

Vongóður borgarstjóri Michael Tubbs bindur mikla vonir við borgaralaun.

Baráttan við fordóma

Niðurstöður þessa tilraunaverkefnis með borgaralaun sýna að fordómar fólks gagnvart borgaralaunum eru ekki á rökum reistir. Margir hafa haldið því fram að tekjulágir einstaklingar sem fá borgaralaun eyði þeim að mestu leyti í vímuefni. Það er ekki raunin í Stockton. Michael Tubbs, borgarstjóri Stockton, segir í samtali við Huffington Post að verkefnið sé mikilvægt í baráttunni gegn þessum fordómum.

„Við glímum við þann vanda í þessu landi að fólk sem berst í bökkum fjárhagslega, sem og litað fólk, er tengt við lesti eins og fíkniefna- og áfengisnotkun og spilafíkn. Mér fannst mikilvægt að sýna að fólk notar ekki peningana í það. Það notar peningana í brýnustu nauðsynjar,“ segir Tubbs í samtali við Huffington Post.

Lorrine Paradela, ein af þeim sem fá borgaralaunin í Stockton, segir í samtali við CityLab að peningarnir hafi hjálpað henni að safna fyrir útborgun í nýjan bíl og afborganir á tryggingum. Hún segir hins vegar enn ríkja mikla fordóma í garð fólks sem treystir á fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera.

„Fólk heldur að þeir sem fái þessa peninga vinni ekki. Að þeir noti þá í dóp og áfengi, í að kaupa falleg föt og svoleiðis. En ég nota þessa peninga í fjölskyldu mína,“ segir hún. Stacia Martin-West, aðstoðarprófessor í Háskólanum í Tennessee og einn af eftirlitsaðilunum í verkefninu um borgaralaun, segir þetta þrautseiga mýtu.

„Stóra ranghugmyndin er sú að fólk sem er í fjárhagskröggum taki slæmar ákvarðanir er varða fjárhaginn. En ég held að ef við horfum á þessi gögn þá sjáum við fólk sem berst í bökkum en forgangsraðar og tekur skynsamar ákvarðanir um hvar peningunum er best varið,“ segir Martin-West í samtali við Huffington Post.

Borgaralaun til bjargar? Athyglisvert verður að sjá lokaniðurstöður tilraunarinnar. Mynd: Getty Images

Aldagömul hugmynd

Þó að hugmyndin um borgaralaun sé ekki ný af nálinni ríkir mikil eftirvænting um verkefnið í Stockton og lokaniðurstöðurnar að loknum þessum átján mánuðum. Ef niðurstöðurnar eru jákvæðar gæti þetta gefið hugmyndinni um borgaralaun byr undir báða vængi, en borgaralaun eru eitt stærsta kosningamál demókratans Andrews Yang, sem gælir við forsetaframboð, og lofar hann hverjum einasta Bandaríkjamanni þúsund dollurum, rúmlega 120 þúsund krónum, á mánuði í borgaralaun. Tilraunin í Stockton er hins vegar mun minni en fyrri tilraunir með borgaralaun annars staðar í heiminum þar sem aðeins 125 manns taka þátt. Einnig eru borgaralaunin frekar lág og virka einna helst sem líflína frekar en að þau dekki grunnþarfir þeirra sem taka þátt, líkt og hugmyndin á bak við borgaralaun felur í sér.

Talið er að sögu borgaralauna megi rekja aftur til ársins 1516 þegar enski heimspekingurinn og lögfræðingurinn Thomas More skrifaði bókina Útíópía. Þar lýsir hann fullkomnu samfélagi sem er hannað þannig að fólk neyðist ekki til að brjóta af sér vegna fátæktar og ójöfnuðar. Heimspekingurinn og rithöfundurinn Thomas Paine lagði hugmyndir sínar um borgaralaun síðan fram árið 1797 og tók vangaveltur More skrefinu lengra. Sagði hann að allir, hvort sem þeir væru ríkir eða fátækir, ættu að fá greiddan arð af sameiginlegum auðlindum hvers lands fyrir sig. Sagði hann borgaralaun vera náttúrulegan og meðfædda rétt allra íbúa heimsins. Heimspekingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Bertrand Russell gaf út bókina Proposed Roads to Freedom: Socialism, Anarchism and Syndicalism árið 1918. Í þeirri bók kom fram hugmynd að algildri grunnframfærslu sem er nánast eins og hugmyndin á bak við borgaralaun er skilgreind í dag. Umræðan um borgaralaun náði hámarki í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar þegar tólf hundruð hagfræðingar skoruðu á Bandaríkjaforseta að skoða upptöku borgaralauna þar í landi.

Mistókst hjá Finnum

Í Evrópu hefur verið vaxandi umræða um borgaralaun frá aldamótum, þar á meðal á Íslandi. Píratar hafa hvað mest vakið máls á hugmyndinni og kemur meðal annars fram í þingsályktunartillögu Píratans Halldóru Mogensen að borgaralaun uppræti innbyggðan ójöfnuð. Í hugmyndum Pírata á að fjármagna borgarlaun með arði af auðlindum landsins.

„Skilyrðislaus grunnframfærsla er hugmynd að kerfi sem ætlað er að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega, gera það réttlátara og sömuleiðis uppræta ákveðinn innbyggðan ójöfnuð í samfélaginu. Þetta er framkvæmt með því að greiða hverjum og einum borgara fjárhæð frá ríkinu óháð atvinnu eða öðrum tekjum,“ segir í tillögunni.

Í umræðunni um borgaralaun á Íslandi var oft horft til Finna, en tveggja ára borgaralaunaverkefni þar í landi hófst í janúar árið 2017. Í apríl í fyrra var staðfest að tilraunin myndi ekki vara lengur en þessi tvö ár og fyrr á þessu ári voru bráðabirgðaniðurstöður úr verkefninu birtar af finnsku tryggingastofnuninni Kela. Þær sýndu svart á hvítu að verkefnið hefði mistekist. Í Finnlandi var gengið út frá því að tekjuöryggið sem borgaralaunin myndu skapa, leiddi til þess að einstaklingar fyndu hjá sér hvata til að stofna til eigin reksturs eða verktöku. Alls fengu tvö þúsund atvinnulausir Finnar greiddar um 75 þúsund krónur á mánuði í eitt ár. Til að gera langa sögu stutta þá kom í ljós að þeir sem voru á borgaralaunum höfðu verið í vinnu í 49,6 daga að meðaltali, en þeir sem ekki voru á borgaralaunum voru í vinnu 49,3 daga að meðaltali. Atvinnuþátttakan var því 0,8 prósentum meiri hjá þeim sem voru á borgaralaunum, sem voru vonbrigði þeirra sem sáu um þetta tilraunaverkefni.

Ef litið er hins vegar til þorpsins Otjivero í Namibíu er sagan önnur. Þar var gerð tveggja ára tilraun með borgaralaun sem hófst árið 2007. Í þorpinu var gríðarleg fátækt, atvinnuleysi og há glæpatíðni. Niðurstöður tilraunarinnar sýndu að tilkynntum glæpum til lögreglu fækkaði um tæp 37 prósent. Þá féll hlutfall vannærðra barna úr 42 prósentum í 10 prósent og brottfall úr skólum minnkaði um rúm fjörutíu prósent. Atvinnuleysi fór úr 60 prósentum í 45 prósent og atvinnuþátttaka jókst. Einnig var fjöldi nýrra fyrirtækja stofnaður á þessum tveimur árum, en það er einmitt eitt af því sem hugmyndafræðin á bak við borgaralaun snýst um – að auka nýsköpun.

Þungur róður Stockton varð stærsta borg Bandaríkjanna til að verða gjaldþrota eftir efnahagshrunið. Mynd: Getty Images

Einhverjar efasemdir

Vonir eru bundnar við verkefnið í Stockton, ekki síst því það gæti minnkað kvíða fólks og almennt aukið lífsgæði þess. Tíminn verður að leiða í ljós hver raunveruleg áhrif borgaralauna hefur í borginni. Jesse Rothstein, prófessor við Berkley-háskóla, hefur sínar efasemdir.

„Ég held að SEED geti ekki svarað þeim spurningum sem við teljum mikilvægar varðandi borgaralaun,“ segir hann í samtali við Huffington Post. Bætir hann við að hann telji að tilraunin í Stockton geti ekki gefið rétta mynd um hvað borgaralaun kosti samfélagið, en leiðin hefur í gegnum tíðina verið talin dýrari en að halda úti velferðarkerfi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Pressan
Í gær

Þriðjungur Breta vill hugsanlega ekki fá bólusetningu gegn kórónuveirunni

Þriðjungur Breta vill hugsanlega ekki fá bólusetningu gegn kórónuveirunni
Pressan
Í gær

Segir frá margvíslegri áreitni – „Hann vildi sofa hjá mér“

Segir frá margvíslegri áreitni – „Hann vildi sofa hjá mér“
Fyrir 2 dögum

Silungsveiðin víða mjög góð

Silungsveiðin víða mjög góð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Bandaríkjastjórn vísar erlendum námsmönnum úr landi – Hefur áhrif á íslenska námsmenn

Bandaríkjastjórn vísar erlendum námsmönnum úr landi – Hefur áhrif á íslenska námsmenn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tveir létust í skelfilegu lestarslysi á landamærum Þýskalands og Tékklands

Tveir létust í skelfilegu lestarslysi á landamærum Þýskalands og Tékklands
Pressan
Fyrir 3 dögum

Nýtt tilfelli heilaétandi amöbu staðfest í Flórída

Nýtt tilfelli heilaétandi amöbu staðfest í Flórída