Karlmaður á þrítugsaldri, sem er sagður hafa rústað bíl Svölu Lindar Ægisdóttur; beitt son hennar ofbeldi og ofsótt fjölskylduna meðal annars með líflátshótunum, var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. apríl.
Lögreglu hefur þó ekki tekist að hafa uppi á manninum til að færa í gæsluvarðhald. Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti þetta í samtali við DV.
Maðurinn sem um ræðir er þekktur CrossFit-kappi en hann hefur áður vakið athygli fjölmiðla. Var það helst þegar hann féll á lyfjaprófi en tvö ólögleg efni fundust í lyfjasýni mannsins. Maðurinn hafði þá verið búinn að tryggja sér keppnisrétt á heimsleikunum í CrossFit en hann er í banni frá íþróttinni fram til ársins 2023.
Lesa meira: Maðurinn sem rústaði bíl Svölu kominn í gæsluvarðhald – „Nú fáum við smá andrými“
„Maðurinn er grunaður um frelsissviptingu, ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, hótanir og eignaspjöll. Ætluð brot mannsins voru framin á rúmlega þriggja og hálfs mánaða tímabili, eða frá því í lok nóvember á síðasta ári og fram í miðjan mars á þessu ári. Þá hefur viðkomandi stöðu sakbornings í sex öðrum málum, sem eru til meðferðar hjá lögreglu,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar um gæsluvarðhaldið.
Færa átti manninn í gæsluvarðhald í gær en þá fannst hann hvergi. „Við skorum á hann að gefa sig fram við lögreglu,“ sagði Margeir í samtali við RÚV um málið. Þá sagði Margeir að það væri ekki óalgengt að fólk láti sig hverfa þegar það á að fara í gæsluvarðhald.