fbpx
Sunnudagur 23.janúar 2022
Fréttir

Jón Steinar segir gróflega snúið út úr orðum hans – „Það er satt að segja furðulegt að sjá ábyrgar öfgakonur gera þessu skóna“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. nóvember 2021 13:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, furðar sig á opnu bréfi sem meðlimir baráttusamtakanna Öfga birtu til hans í gærkvöldi. Segir hann Öfga saka sig um meiningar sem hann kannist ekki við og að gróflega hafi verið snúið úr orðum hans. Hann svarar Öfgum í pistli sem birtist hjá Vísi.

„Sendendur bréfsins eru sex konur sem vilja kenna sig við öfgar. Mér finnst að þær ættu ekki að gera það, enda fæ ég ekki betur séð en sjónarmið þeirra séu að mörgu leyti öfgalaus, þó að mér sé gert rangt til og ætlaðar meiningar sem ég kannast ekki við og hef aldrei borið fram.“ 

Jón Steinar segir að í grein sinni í Morgunblaðinu þann 18. nóvember hafi hann hvatt bæði þá sem útsettir eru fyrir kynferðisofbeldi sem og þeirra sem gætu orðið ofbeldismenn til að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir brotin eða að minnsta kosti fækka þeim.

„Ég er samt sannfærður um að þorri kynferðisbrota er framinn af drukknum ofbeldismönnum á drukknum fórnarlömbum þeirra. Stundum er ástæða til að ætla að sá sem ofbeldinu beitir, myndi ekki gera það ef hann væri ekki undir áhrifum vímugjafa.“

Jón Steinar segist ekki vilja gera þolendur ábyrga fyrir brotunum sem þeir verða fyrir og furðar hann sig á því að því sé haldið fram um hann.

„Það er auðvitað grófur útúrsnúningur úr orðum mínu að telja mig vilja gera fórnarlömbin ábyrg fyrir brotunum, sem þau hafa mátt þola. Það er satt að segja furðulegt að sjá ábyrgar öfgakonur gera þessu skóna. Fyrir mér vakti aðeins að reyna að fækka þessum alvarlegu brotum, þó að erfitt sé að finna leiðir sem virka í þá átt.“

Jón Steinar segist sammála Öfgum um það að best væri að engin ofbeldisbrot væru framin. Hafi hann skrifað grein sína í von um að þeim gæti kannski fækkað ef fólk gætti að áfengisneyslu sinni.

„Ábyrgð á ofbeldinu hvílir á brotamanni en ekki öðrum. Með vinsemd beini ég því til ykkar að ætla mér ekki skoðanir í aðra átt. Ástandið í þessum málum er hins vegar klárlega þannig að ég hvet stúlkur, sem mér þykir vænt um, að hafa varann á sér í umgengni við karlmenn sem þær eru kannski að hitta í fyrsta sinn á skemmtistað. Ég hika ekki við að benda þeim á að þær geti stundum beitt aðferðum sem draga úr líkum á að brotið verði á þeim, m.a. með því að skerða ekki dómgreind sína með neyslu vímugjafa. Og ég mun halda því áfram.“

Lendi þær stúlkur þó í að verða fyrir brotum segist Jón Steinar ætla að gera allt sem hann getur til að hjálpa þeim og að sjálfsögðu beri þær enga ábyrgð á brotinu.

„Og það eins þó að þær hafi verið drukknar.“

Jón Steinar segir það misskilning að það sé gagnlegt umræðunni að mála hann sem einhvern andstæðing þolenda. Hann hafi skömm á ofbeldismönnum og ættu Öfgar frekar að líta á hann sem samherja en fjandmann.

„Verði grein mín til þess að forða einni nauðgun yrði ég sáttur. En þetta munum við aldrei fá að vita, hvorki ég né öfgakonurnar. Við skulum samt taka höndum saman um að gera það sem við getum til að fækka ofbeldisbrotum. Sumir telja það stundum geta orðið málstað til framdráttar að búa til andstæðing jafnvel með því að skrökva á hann sökum. Það er misskilningur hjá ykkur ef þið haldið að þessi aðferð sé vænleg gagnvart mér. Ég hef skömm á ofbeldismönnum og er miklu fremur samherji ykkar en fjandmaður.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Danska pressan segir að markvarðaskiptin hafi ráðið úrslitum í erfiðum leik

Danska pressan segir að markvarðaskiptin hafi ráðið úrslitum í erfiðum leik
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjarta þjóðarinnar slær með strákunum á ögurstundu – Þetta hafði fólk að segja um leikinn við Dani

Hjarta þjóðarinnar slær með strákunum á ögurstundu – Þetta hafði fólk að segja um leikinn við Dani