fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Ófremdarástand á Vatnsnesvegi

Skólabörnum daglega ekið um ónýtan og hættulegan veg – Foreldrum ekki um sel – Tímaspursmál hvenær alvarlegt slys verður

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 28. september 2016 07:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Með öllum þessum straum af ferðamönnum er það tímaspursmál hvenær þarna verður mjög alvarlegt slys, en ég vona sannarlega að það verði eitthvað gert áður en til þess kemur,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, oddviti Húnaþings vestra, þar sem íbúar í Vatnsnesi og Vesturhópi eru orðnir langþreyttir á því ófremdarástandi sem er í samgöngumálum sveitarfélagsins.

Vatnsnesvegur og fleiri vegir sveitarinnar eru sagðir svo gott sem ónýtir og barátta sveitarstjórnar og íbúa um árabil hefur litlum úrbótum skilað. Fyrir utan gríðarlega umferð ferðamanna um varhugaverðan Vatnsnesveginn þá eru íbúar á svæðinu áhyggjufullir yfir því að mörg börn þurfi að ferðast daglega um illa farna og hættulega vegi í skólarútum til að sækja skóla á Hvammstanga. Langþreyttir á sinnuleysi og fjársvelti til samgöngubóta hafa einhverjir þeirra rætt sín á milli að aðgerða sé þörf til að ná eyrum ráðamanna og fjárveitingarvaldsins. Aðgerðir á borð við að neita að senda börnin sín í skóla og grafa hreinlega í sundur veginn hafa þar verið nefndar. Unnur Valborg kveðst skilja mjög vel að íbúar séu orðnir langþreyttir.

Hér má sjá dæmigerðan vegkafla á Vatnsnesvegi. Sundurtættur og holur svo langt sem augað eygir.
Ömurlegt ástand Hér má sjá dæmigerðan vegkafla á Vatnsnesvegi. Sundurtættur og holur svo langt sem augað eygir.

Mynd: Aðsend

Ónýtur vegur

„Það sem veldur er fyrst og síðast skortur á fjármagni frá ríkinu,“ segir Unnur Valborg í samtali við DV. Þetta hafi verið baráttumál í Húnaþingi vestra um árabil. „Við tökum það upp við hvert einasta tækifæri. Á öllum fundum með fjárlaganefnd, öllum þingmannafundum, á fundi með ráðherra í febrúar lýstum við yfir áhyggjum okkar vegna þessa. Við erum stöðugt að hamra á þessu máli en allt kemur fyrir ekki,“ segir Unnur Valborg. Hún bætir við að það fjármagn sem Vegagerðin fái úthlutað til viðhalds almennt sé allt of lítið og það bitni á Vatnsnesvegi sem og öðrum vegum. Það er sá vegur sem sveitarstjórnin hefur lagt hvað mesta áherslu á, enda umferðin um hann mikil. Náttúruperlur og ferðaþjónusta sem erlendir ferðamenn sæki mikið í geri það að verkum að vegurinn annar ekki lengur þeirri sprengingu sem orðið hefur. Og vegurinn líður fyrir það og bráðabirgðareddingar á borð við að hefla veginn dugi skammt. Það þýðir hreinlega ekkert að hefla slíkan veg þar sem allur ofaníburður er löngu farinn því vegurinn er bara ónýtur að sögn Unnar Valborgar.

Oddviti Húnaþings vestra segir áralanga baráttu fyrir úrbótum litlu hafa skilað.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir Oddviti Húnaþings vestra segir áralanga baráttu fyrir úrbótum litlu hafa skilað.

Orðið stórhættulegt

„Miðað við þá umferð sem er um t.d. Vatnsnesveginn þá er þetta löngu orðið stórhættulegt. Það eru ekki margar vikur síðan það voru fréttir á einhverjum netmiðlanna um fjögur umferðaróhöpp á veginum á fimm dögum. Það er nánast daglegt brauð að íbúar þarna keyri fram á einhverja sem hafa lent út af, langoftast ferðamenn. Það verður að segjast eins og er að þetta er ófremdarástand og það batnar ekki með þessum aukna fjölda ferðamanna.“

Unnur segir að lauslegir útreikningar sem gerðir hafi verið sýni að um 170–180 þúsund manns muni fara um veginn á þessu ári. Umferðin sé því meiri en fólk geri sér grein fyrir. Og nær allur hringurinn er malarvegur.

Litlar malbiksslummur í einu

Fyrir nokkrum árum var reyndar lagt bundið slitlag við Hvammstanga norður Vatnsnesveginn, en það var aðeins um fimm kílómetra spotti. Hringurinn allur sé um 90 kílómetrar, fyrir utan aðra vegi í sveitarfélaginu.

„Það síðasta sem ég heyrði var að það væri enginn peningur til að hefla, það var núna í byrjun september. Síðan var það nú á dögunum að Vatnsnesvegurinn var heflaður. En það þýðir ekkert að hefla. Vegurinn er bara ónýtur og þú ert kominn ofan í leirdrullulag.“

En stendur ekki til að gera nokkurn skapaðan hlut? Jú, segir Unnur. Samkvæmt nýjustu breytingatillögum samgönguáætlunar þá er gert ráð fyrir 200 milljónum í þennan veg árið 2018. En sú framkvæmd er bundin brúarstæði yfir Tjarnará en um er að ræða um 1,8 kílómetra af þessum 90 kílómetrum.

Til stendur að setja 200 milljónir árið 2018 í þennan hættulega vegkafla.
Brúarstæðið yfir Tjarnará Til stendur að setja 200 milljónir árið 2018 í þennan hættulega vegkafla.

Mynd: Aðsend

„Vissulega er það brúarstæði alveg skelfilegt. Það er eins slæmt og mögulega getur verið. Það er blint, það er brekka, einbreið brú og allt þetta sem hakar í öll hættuboxin. En það gefur augaleið að 1,8 kílómetrar af 90 kílómetrum eru bara dropi í hafið og langt frá því að vera nóg. Og ekki fyrr en 2018.“

Úrbóta þörf áður en illa fer

Unnur segir að henni sé til efs að nokkur einasti maður á suðvesturhorninu léti bjóða sér þetta ástand og hún hafi heyrt af áðurnefndum hugmyndum íbúa að aðgerðum.

Hér má sjá jeppling sem endaði utan vegar og á þakinu eftir að ökumaður missti stjórn á honum.
Algeng sjón Hér má sjá jeppling sem endaði utan vegar og á þakinu eftir að ökumaður missti stjórn á honum.

„Ég vona að það þurfi ekki að koma til þess en ég skil vel hvernig fólki líður. Ég vona sannarlega að það þurfi ekki að koma til einhverra aðgerða og eins vona ég að það þurfi ekki að koma til þess að þarna verði skelfilegt slys. Þó það hafi orðið heilmikið tjón á bílum þá hefur sloppið ótrúlega vel til með slys á fólki, sem betur fer.“

Undir þetta taka sveitungar Unnar sem DV hefur rætt við. Þeir hafa einmitt áhyggjur af því að svo virðist sem oft þurfi alvarlegt slys til að eitthvað sé gert. Þá sé oft hægt að finna peninga til úrbóta og byrgja brunninn, en þá ekki fyrr en eftir að barnið er dottið ofan í hann – eins og einn þeirra orðar það.

„Þetta er orðið ófremdarástand og vegurinn fyrir löngu hættur að anna þessari miklu umferð sem um hann er,“ segir Unnur Valborg að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Í gær

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Í gær

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk