Fyrir rösku ári síðan var Heiða Björg Hilmisdóttir lítt þekktur borgarfulltrúi en nú er hún orðin einn umtalaðasti femínisti landsins og varaformaður Samfylkingarinnar. Kristinn hjá DV heimsótti Heiðu og ræddi við hana um stjórnmálin, #metoo-byltinguna, æsku í fátækt og son hennar, Hilmi, sem greindist yngstur Íslendinga með MS-taugasjúkdóminn.
Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV
Heiða var kjörinn varaformaður í Samfylkingunni í febrúarmánuði árið 2017 en var þó enn tiltölulega lítið þekkt á landsvísu. Í nóvember síðastliðnum var nafn hennar hins vegar á allra vörum þegar hún leiddi fyrstu #metoo-byltinguna þar sem konur í stjórnmálum sögðu sögur sínar af mismunun, áreitni og ofbeldi.
Heiða fylgdist líkt og aðrir vel með frægum leikkonum í Hollywood sem sögðu frá ofbeldi framleiðandans Harvey Weinstein og annarra manna. Þá bauð aðstoðarmaður borgarstjórans í Stokkhólmi henni inn í sænskan #metoo-hóp og hún sá að þær ætluðu að gera sínar sögur opinberar. Hún vissi hvernig landið lá á Íslandi og einnig að margir gerðu sér ekki grein fyrir hversu útbreidd mismununin og ofbeldið var.
Því ákvað Heiða einn föstudaginn að stofna hóp fyrir íslenskar stjórnmálakonur, sem hún segir hafa verið mikla áhættu en viðbrögðin komu henni mjög á óvart.
„Þetta var eins og flóðbylgja. Konurnar og sögurnar hrúguðust inn í hópinn, hundruð talsins, úr öllum flokkum, frá hægri til vinstri, ungar og gamlar, og á þriðjudeginum vorum við komnar í Kastljós. Það var mjög mikill órói í samfélaginu og ég fann að sumir kollegar mínir urðu órólegir. Ég þekki karla sem hafa hluti á samviskunni og margir lásu allar sögurnar til að leita að sér.“
Heiða er augljóslega snortin þegar hún lýsir traustinu sem hún fékk en hún sá um að taka við sögunum og taka persónugreinanlegar upplýsingar úr þeim fyrir birtingu.
„Trúnaðurinn og traustið sem ég fékk frá konum úr öðrum flokkum fannst mér sérstaklega aðdáunarverður. Þarna ríkti algjör samstaða. En ég sá líka margar sögur, kannski frá ólíkum tímum og landshlutum, sem voru nákvæmlega eins. Þarna er ákveðið mynstur sem skapast og ekki endilega auðvelt að breyta því. Við vissum að við vorum að taka áhættu og því hittumst við nokkrar konur úr ólíkum flokkum og ræddum saman fyrir þennan Kastljósþátt. Við vissum alveg að framtakið var ekki líklegt til að afla okkur vinsælda innan flokkanna.“
Heiða segir að það hefði verið hægt að nafngreina karlana í sögunum en þá hefði umræðan hvarfast um þá og þeirra mál. Birtingin hefði litið út sem persónuleg árás á þá menn. En byltingin var gerð til þess að opna umræðuna og breyta hugsunarhætti fólks almennt.
„Ég veit hins vegar að ákveðnir menn hafa misst sinn sess innan flokka vegna sagnanna og oft voru ólíkar konur að tala um sama mann. Sögurnar voru auðvitað misalvarlegar og sumir hafa gagnrýnt framtakið fyrir að blanda þessu öllu saman. En sögurnar eru allar alvarlegar og þær sýna hvernig valdastrúktúrinn er í samfélaginu. Þetta er allt birtingarmynd af sama vandamáli, það er að sumir telja sig hafa völd yfir öðru fólki og beita þessum meðulum til þess. Mismunun, áreitni og ofbeldi. Valdamiklir karlar hafa alltaf haft rétt yfir konum öldum saman og því þarf að breyta. Vissulega eru til dæmi um hið gagnstæða en þau tilvik eru í miklum minnihluta.“