fbpx
Mánudagur 17.júní 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

20. júlí 1969 – Risastórt skref fyrir mannkynið

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 9. september 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að morgni 16. júlí 1969 sátu Neil Armstrong, Buzz Aldrin og Michael Collins um borð í Apollo 11 sem sat á toppi Saturn V-eldflaugarinnar í Kennedy Space Center í Flórída. Klukkan 9.32 voru hreyflar eldflaugarinnar ræstir og Apollo 11 geystist af stað út í geiminn. Um 12 mínútum síðar var geimfarið komið út fyrir gufuhvolfið og á braut um jörðina. Eftir einn og hálfan hring fékk áhöfnin fyrirskipun um að hefja ferðina til tunglsins. Þremur dögum síðar var geimfarið komið á braut um þennan næsta nágranna okkar. Degi síðar klifruðu Armstrong og Aldrin um borð í lendingarfarið Eagle (Örninn) og lögðu af stað í átt til lendingar á tunglinu. Collins varð eftir í Apollo 11 sem var á braut um tunglið.

Saturn V-eldflaugarnar eru enn þann í dag hæstu, öflugustu og þyngstu eldflaugarnar sem hafa verið notaðar. Engar flaugar hafa borið þyngri farm frá jörðu og út í geiminn, en þær gátu borið allt að 140 tonna farm. Full þörf var á þessari miklu burðargetu til að koma Apollo 11 og öðrum Apollo-geimförum til tunglsins því geimfarið þurfti tank af eldsneyti til að komast fram og til baka. Þennan „aukaeldsneytistank“ gat Saturn V-flaugin borið með sér út í geim.

Pólitík réð för

Mikil og hröð þróun hafði verið í geimferðum árin á undan. Aðeins voru rétt rúmlega átta ár síðan Gagarin og Shepard fóru fyrstir manna út í geiminn og aðeins sjö mánuðir síðan NASA tók þá djörfu ákvörðun að senda Apollo 8 alla leið til tunglsins. Það var í fyrsta sinn sem mönnuðu geimfari var skotið á loft með hinni öflugu Saturn V -eldflaug. Yuri Gagarin var fyrsti maðurinn til að fara út í geiminn en hann var frá Sovétríkjunum. Alan Shepard var fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að fara út í geiminn. Hann átti síðar eftir að fara til tunglsins en hann steig þar niður fæti 1971. Í kjölfar þessara afreka sagði John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, í ræðu þann 25. maí 1961 að Bandaríkjamenn skyldu setja sér það markmið að koma mönnum til tunglsins fyrir lok áratugarins.

„Ég tel að þessi þjóð ætti að einsetja sér, að ná því markmiði, áður en áratugurinn er úti, að senda mann til tunglsins og koma honum örugglega heim til jarðar aftur.“

Ekki af því að það væri auðvelt, heldur af því að það væri erfitt. Þetta sagði hann í ræðu fyrir framan báðar deildir Bandaríkjaþings. Á bak við þessa ákvörðun voru nokkrir pólitískir þættir sem urðu þess valdandi að Kennedy tók þessa ákvörðun á þessum tímapunkti. Kennedy fannst hann vera undir miklum þrýstingi um að láta Bandaríkin „ná Sovétríkjunum og taka fram úr“ þeim í „geimkapphlaupinu“. Sovétmenn höfðu komið Bandaríkjamönnum í opna skjöldu 1957 þegar þeir sendu Sputnik-gervihnöttinn á braut um jörðu og urðu þar með fyrstir til að koma gervihnetti á braut um jörðu. Ekki bætti úr skák að Yuri Gagarin varð fyrstur manna til að fara út í geiminn en það gerðist þann 12. apríl 1961. Það gerði stöðuna enn verri pólitískt að Svínaflóahneykslið í apríl 1961 var í hámæli og hafði komið illa við Bandaríkin. Kennedy vildi því tilkynna um eitthvað sem Bandaríkin ættu möguleika á að gera á undan Sovétmönnum. Eftir að hafa ráðfært sig við varaforsetann, forstjóra NASA og fleiri embættismenn var niðurstaða hans að mönnuð geimferð til tunglsins væri mikil tæknileg áskorun, en áskorun sem Bandaríkjamenn gætu tekist á við.

Stjórnstöðin í Houston, Texas

Stóri dagurinn 20. júlí

Armstrong stýrði Erninum niður að yfirborði tunglsins. Þegar kom að lendingu varð hann að breyta út frá fyrri áætlun þar sem aðstæður voru aðrar en reiknað var með. Hann þurfti að stýra geimfarinu framhjá grjótiþöktu svæði við suðurbrún Friðarhafsins. Viðvörunarbjöllur Arnarins glumdu í sífellu á síðustu stundum aðflugsins og lendingarinnar. Það var vegna þess að stjórntölva geimfarsins reyndi að gera of mikið í einu og réð ekki við það.

 

Klukkan 16.18 að staðartíma á austurströnd Bandaríkjanna lenti geimfarið á tunglinu en þá átti það aðeins eftir eldsneyti til 30 sekúndna flugs. Armstrong kallaði í talstöðina:

Houston, Friðarhafsstöð hér. Örninn er lentur.“

Mikil fagnaðarlæti brutust út í stjórnstöð NASA á jörðu niðri.

Fyrsti maðurinn sem steig fæti á tunglið

Því næst var komið að því að Armstrong og Aldrin yfirgæfu geimfarið og stigu fæti á tunglið. Báðir höfðu hug á að verða fyrstir til þess enda vitað mál að sagan myndi fyrst og fremst minnast þess sem það gerði. En það sem réð því að það var Armstrong sem steig fyrstur manna fæti á tunglið var staðsetning þeirra í Erninum. Armstrong var nær lúgunni og þurfti því að fara út á undan.

Klukkan 22.56 að staðartíma á austurströnd Bandaríkjanna steig Armstrong síðan niður á yfirborð tunglsins og mælti hin ódauðlegu orð:

„Þetta er lítið skref fyrir mann en risastórt stökk fyrir mannkynið.“

Aldrin kom skömmu síðar út og niður á tunglið og kom með einfalda en magnaða lýsingu á yfirborði tunglsins:

„Stórfengleg auðn.“

Þeir félagar könnuðu yfirborð tunglsins í tvær og hálfa klukkustund og söfnuðu sýnum og tóku myndir í gríð og erg. Á tunglinu skildu þeir eftir bandaríska fánann, skjöld til minningar um áhöfn Apollo 1. Á skildi á einum fæti Arnarins stendur:

„Hér stigu menn frá reikistjörnunni jörð fyrst fæti á tunglið í júlí 1969 e. Kr. Við komum í friði fyrir hönd alls mannkyns.“

Heimferðin gekk vel og þeir lentu í hafinu úti fyrir Hawaii 24. júlí. Áskorun Kennedy hafði verið mætt. Menn höfðu ferðast til tunglsins, stigið fæti á það og komist aftur heim heilu og höldnu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Stóri dagurinn hjá Ernu Hrönn – Sjáðu myndirnar

Stóri dagurinn hjá Ernu Hrönn – Sjáðu myndirnar
Fókus
Í gær

Liggur flatur eftir 12 ferðir á Esjuna á innan við sólarhring: „Geng ekki um óstuddur“

Liggur flatur eftir 12 ferðir á Esjuna á innan við sólarhring: „Geng ekki um óstuddur“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Er siðferðislega rangt að horfa á klám?

Er siðferðislega rangt að horfa á klám?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Daði Freyr gefur út plötu – „Njótið lífsins og ekki taka hlutum of alvarlega“

Daði Freyr gefur út plötu – „Njótið lífsins og ekki taka hlutum of alvarlega“