fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Landsþekktur fréttamaður myrti konu á Miklubraut

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 6. ágúst 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1976 vakti mikinn óhug á Íslandi en þá voru óvenju mörg morð framin hér á landi, fjögur talsins, og auk þess var Guðmundar og Geirfinnsmálið í miklum algleymingi. Eitt þessara morða vakti sérstaka athygli því þolandinn var kona á sextugsaldri og gerandinn landskunnur fréttamaður sem flutt hafði fréttir í dagblöðum, sjónvarpi og útvarpi aðeins skömmu fyrr. Ástæðan virtist einnig lítilfjörleg og handahófskennd því konan hafði komið að manninum þegar hann var að stela frímerkjasafni og fleiri smálegum hlutum.

 

Leitað að öxi

Um fjögur síðdegis, fimmtudaginn 26. ágúst árið 1976, fór Lovísa Kristjánsdóttir, 57 ára, að Miklubraut 26. Mæðgur sem þar bjuggu voru á ferðalagi í Lundúnum og Lovísa hafði lofað að vökva blómin fyrir þær á meðan. Þegar hún skilaði sér ekki heim um kvöldið fór eiginmann hennar að lengja eftir henni og fór svo að hann hafði samband við Lögregluna í Reykjavík um tíu leytið. Lögreglumenn fóru að Miklubraut og fundu Lovísu þar liggjandi látna og illa til reika fyrir neðan hringstiga sem lá niður í kjallara.

Lovísa var alblóðug og lá blóðrefill inn í kjallarann þar sem eldhús íbúðarinnar var. Lögreglumenn sáu strax að hér var ekki um slys að ræða heldur hafði henni verið veittir áverkar á höfði með verkfæri. Til að byrja með var ekki vitað hvers kyns vopn hafði verið notað, öxi eða einhvers konar höggvopn.

Nágrannar urðu ekki varir við neitt og fæstir heima þennan dag. Ekkert benti til þess að brotist hafði verið inn í húsið en þrennar útidyr voru á húsinu. Rannsóknarlögreglan var kvödd á staðinn og mikil leit hafin að öxi í nærliggjandi görðum og öskutunnum og á Miklatúni.

Lovísa Kristjánsdóttir

Játaði fyrir þýskum lögreglumanni

Rannsóknin var umfangsmikil og var leitað til Karls Schutz og vesturþýsku rannsóknarlögreglumannanna sem voru hér á landi í tengslum við Guðmundar og Geirfinnsmálið. Nokkrir einstaklingar voru kallaðir til yfirheyrslu vegna málsins en sleppt aftur. Föstudaginn 27. ágúst kom maður til lögreglunnar og játaði verknaðinn en þegar hann var yfirheyrður stóðst ekkert af því sem hann sagði, enda var hann mjög ölvaður, og var honum sleppt.

Degi seinna var maður handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald eftir ábendingar frá fólki sem hafði tekið eftir grunsamlegu atferli hans. Hann sagðist ekki hafa komið nálægt húsinu þetta kvöld en gat ekki gefið greinargóðar skýringar á ferðum sínum þennan dag. Maðurinn hét Ásgeir Ingólfsson, 42 ára þekktur fjölmiðlamaður, og miðvikudaginn 1. september játaði hann loks að hafa orðið Lovísu að bana.

Ásgeir var blaðamaður og þýðandi sem starfaði hjá Vísi og Morgunblaðinu árin 1960 til 1967. Eftir það varð hann frægur sem fréttamaður og þulur hjá Ríkissjónvarpinu á fyrstu árum þess. Þar starfaði hann til 1971 og svo hjá Ríkisútvarpinu til 1975, árinu áður en hann framdi ódæðið á Miklubraut.

Ásgeir óskaði þess að fá að tala einslega við Karl Schutz og í kjölfarið á því samtali fór hann fyrir sakadómara og gaf skýrslu um þennan örlagaríka dag. Þá fór hann með rannsóknarlögreglumönnum á öskuhaugana og sýndi þeim staðinn þar sem hann hafði losað sig við vopnið, kúbein en ekki öxi. Lýsing á morðinu, aðdraganda þess og eftirmálar voru kunngerðir fjölmiðlum á blaðamannafundi Schutz og íslenskra rannsóknarlögreglumanna.

Ásgeir Ingólfsson

Bað hana að segja ekki frá

Ástæða þess að engar hurðir eða gluggar voru brotnir var að hann átti lykil að íbúðinni og þekkti þar til. Rúmu hálfu ári áður hafði hann látið smíða lykil að íbúðinni og vissi að þar inni var verðmætt frímerkjasafn sem hann hugðist stela. Það frímerkjasafn átti fyrrverandi húsbóndi heimilisins.

Um hálf ellefu leytið um morguninn fór hann inn í íbúðina og fann þar hluta safnsins. En hann var lengi í íbúðinni og tók marga aðra muni, svo sem skartgripi. Ásgeir var með bláa íþróttatösku meðferðis en í henni voru ýmis verkfæri úr bílnum hans. Hann var staddur á efri hæð hússins þegar hann heyrði að einhver var að koma inn. Reyndist það vera Lovísa sem hann þekkti ekki og kynnti hann sig því fyrir henni. Henni var ljóst að Ásgeir var þar í leyfisleysi og hann áttaði sig á að hún vissi það. Því bað hann hana að segja ekki frá ef hann lofaði að skila öllum mununum og hafa sig á brott.

Að sögn Ásgeirs hugsaði Lovísa sig um stund en hafnaði loks beiðni hans þrátt fyrir að hann hafi beðið alls þrisvar sinnum. Þá ætlaði hún að halda á brott úr íbúðinni og segja frá en Ásgeir var í mjög örvingluðu ástandi og greip til þess ráðs að ná í lítið kúbein úr töskunni sinni.

Þegar hún beygði sig niður til að fara í skóna sína sló Ásgeir hana nokkrum sinnum í hnakkann. Hún hné ekki niður þá heldur gekk inn í stofuna og út að hringstiga sem lá niður í kjallarann. Þar féll hún niður og fylgdi hann á eftir með kúbeinið og sló hana nokkrum sinnum til viðbótar í höfuðið.

Eftir þetta skolaði hann kúbeinið í eldhúsvaskinum og dvaldi nokkra stund í íbúðinni til að hugsa næstu skref. Þá setti hann töskuna og kúbeinið í poka og ók með hann út á öskuhauga. Einnig fór hann í efnalaug með jakkann sinn til að hreinsa blóðið en frímerkin og annað þýfi úr íbúðinni hafði hann á brott með sér.

 

Sneri lífinu við og fékk uppreista æru

Þann 4. mars árið 1977 var Ásgeir dæmdur í Sakadómi Reykjavíkur til sextán ára fangelsisvistar fyrir morðið á Lovísu Kristjánsdóttur. Í þeirri uppkvaðningu var hann einnig dæmdur fyrir þjófnað í íbúðinni og þjófnað á þremur peningakössum í vélsmiðjunni Héðni rúmu hálfu ári áður. Árið 1979 var hann dæmdur í Hæstarétti en fimm árum síðar var hann kominn á reynslulausn eftir afplánun á Litla-Hrauni.

Ásgeir sneri lífi sínu við, sneri sér aftur að þýðingum og starfaði hjá Íslenska útvarpsfélaginu og Stöð 2 frá árinu 1987 til dauðadags árið 2001. Eftir hann liggja tugir þýddra bóka og eigin bók um laxveiði í Elliðaánum. Síðastliðið haust kom fram að Ásgeir fékk uppreist æru árið 1996.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Lúsmý leikur landann grátt – Svona slærðu á óþægindin

Lúsmý leikur landann grátt – Svona slærðu á óþægindin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stórfurðuleg mynd af Guðna vekur athygli – „Þarna var einhver töframaður sem vildi sýna kúnstir sínar“

Stórfurðuleg mynd af Guðna vekur athygli – „Þarna var einhver töframaður sem vildi sýna kúnstir sínar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Konunglegt foreldrafrí

Konunglegt foreldrafrí
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gera grín að miðaldra fólki í Facebook hópi: „Þessi Me Too bylting er komin út í ÖFGAR“

Gera grín að miðaldra fólki í Facebook hópi: „Þessi Me Too bylting er komin út í ÖFGAR“