„Nú er mér ekki illa við nokkurn mann og stjórnast ekki af neinum annarlegum hvötum en mér þykir tímabært að rjúfa það ef orðin er til slík helgislepja í kringum Steinar að ekki þyki tækt að beita hans eigin meðulum á hann sjálfan,“ segir Hermann Stefánsson rithöfundur um kollega sinn Steinar Braga í Facebook-grúppunni Menningarátökin.
Þar fer Hermann hörðum orðum um Steinar Braga sem hefur verið með vinsælustu rithöfundum þjóðarinnar undanfarin ár, en bækurnar Konur, Hálendið og Kata hafa allar vakið eftirtekt og lof gagnrýnenda. Í umfjöllun sinni bendir Hermann á að Steinar hafi óhikað gagnrýnd aðra rithöfunda og gagnrýnendur. Í bókinni Kötu hæðist Steinar að stílbrögðum Jóns Kalmanns og fyrir fjórum árum hjólaði Steinar í Ástráð Eysteinsson bókmenntafræðing og spurði hvort ekki ætti að afhausa „afturhaldskellinguna í Kiljunni“ og á þar við Kolbrúnu Bergþórsdóttur, annan ritstjóra DV.
„Er engum gagnrýnanda í mun að slá í gegn? Afhausa afturhaldskellinguna í Kiljunni? Pakka henni saman, leggja niður Moggann, taka yfir Tímaritið, lemja Ástráð Eysteinsson með táknrænum hætti …“
Segir Hermann að Steinar ætlist til þess að fólk þoli gagnrýni og harkalegar árásir. Nú fær hann að finna fyrir eigin meðölum. Hermann tengir síðan á nýlegt viðtal við Steinar Braga á RÚV sem ber yfirskriftina: „Ég þekki sársaukann og þjáninguna.“ Þar er fjallað um nýjasta verk Steinars, Allt fer, þá ræðir Steinar Bragi einnig um reynslu sína af því að vera bendlaður með vafasömum hætti við frásögn Evu Dís Þórðardóttur sem sagði frá kynferðisofbeldi sem hún hafði orðið fyrir af hendi hálfu manns á listamannalaunum. Salvör Kristjana kennari við HÍ nefndi nafn Steinars Braga í status á Facebook þegar hún fjallaði um málið. Krafðist Steinar Bragi afsökunar í kjölfarið og hótaði málsókn.
Ekki var Hermann hrifinn af viðtali RÚV við Steinar Braga og sagði fyrirsögnina þá yfirborðslegustu í gjörvallri sögu íslenskra bókmennta.
„Hvað á svona vemmilegt bull að þýða? Er maðurinn fábjáni? Og er bókin drasl eftir því? Ég bara spyr.“
Á öðrum stað sagði Hermann það aumingjaskap að hóta Salvöru málsókn.
„Steinar Bragi hótaði að siga lögfræðingi á Salvöru Gissurardóttur. Eðlilega velti ég fyrir mér hvort mannhelvítið sé heilagt […] Að lögsækja? Nei, mér finnst það aumingjaskapur, sérstaklega þegar maður er alltaf ögra sjálfur.“
Í Menningarátökin grúppunni urðu nokkur átök vegna skrifa Hermanns en hann lét ekki slá sig út af laginu og svaraði fullum hálsi hverjum þeim sem andmælti. Þórarinn Leifsson rithöfundur tók til máls og sagði að Hermann hlyti að vera með „jólabókaflóðs-hysteríu“ á háu stigi en bók Hermanns sem kom nýverið út heitir Bjargræði.
Hermann svaraði:
„Ég er sallarólegur. Þetta sem þú segir er hvatarýni. Steinar Bragi er einmitt að drulla yfir kollegana í þessu viðtali. Það fer að verða ágætt, tímabært að einhver salti á móti og hætti þessum helvítis aumingjaskap.“
Þá benti Hermann á að Steinar Bragi hefði gagnrýnt Jón Kalmann í heilli bók
„… fyrir skemmstu ataðist hann sjálfur all-illilega í Jóni Kalman fyrir mærð í heilli skáldsögu, án þess að ég þekki þar vel til, og fékk hvergi bágt fyrir en lætur þó sjálfur frá sér setningar sem ekki síður má atast í og hafa að háði og spotti og þarf ekki að vera mjög harðsvíraður til.“
Hermann segir einnig:
„Þá lét Steinar hafa eftir sér í viðtali að það ætti að hálshöggva íhaldskellinguna Kolbrúnu Bergþórsdóttur og ég man ekki hvað átti að gera við Ástráð Eysteinsson, aflífa hann líklega, án þess að hafa neina efnislega gagnrýni fram að færa, og ég man ekki til þess að Steinar hafi fengið neitt lífsmark á móti þá.“
Hermann kveðst ekki vera illa við nokkurn mann. Þá stjórnist hann ekki af annarlegum hvötum. Hermann segir að lokum:
„ … mér þykir tímabært að rjúfa það ef orðin er til slík helgislepja í kringum Steinar að ekki þyki tækt að beita hans eigin meðulum á hann sjálfan. Ella verður umræðuhalli í spilinu og það er öllum óhollt.“