Hafþór Júlíus Björnsson kraftajötunn
Líkt og síðustu ár gefur DV út veglegt tekjublað með upplýsingum um tekjur ríflega 2400 Íslendinga sem eru byggðar á greiddu útsvari viðkomandi samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra.
Hafþór Júlíus Björnsson
2.539.518 kr. á mánuði
Hafþóri hefur gengið flest í haginn í Jötunheimum og hefur fest sig í sessi sem einn þekktasti aflraunamaður heims.
Hann tryggði sér titilinn sterkasti maður Evrópu í apríl á þessu ári en varð að gera sér silfrið að góðu í keppninni um nafnbótina Sterkasti maður heims.
Hafþór hefur tekið að sér fjölmörg hlutverk í auglýsingum auk þess sem hann mun endurtaka hlutverk í nýrri þáttaröð af Game of Thrones-sjónvarpsþáttunum vinsælu.
Þá gæti hagur hans vænkast enn því nýlega var fjallað um áhuga NFL-liða í Bandaríkjunum að fá Hafþór í sínar raðir.
Kraftajötuninn Hafþór Júlíus hefur verið mikið í fréttum undanfarið í kjölfar þess að hafa verið sakaður um heimilisofbeldi.
Fjallið, hafnaði því að vera ofbeldismaður og neitaði því alfarið að hafa beitt konur ofbeldi. Í viðtali í Fréttablaðinu lok júní sagði Thelma Björk Steimann hönnuður og barnsmóðir Hafþórs að hann hefði ítrekað beitt sig ofbeldi á meðan sambandi þeirra stóð. Þau hafi flutt til Selfoss þar sem hún segir ástandið hafa versnað:
„Hann sló mig og henti mér til, henti mér á hluti og braut hluti. Oft tók hann mig hálstaki þannig að ég leið út af. Stundum hélt hann mér niðri eða hélt mér með annarri hendi á meðan hann kýldi mig með hinni.“
Viðtalið vakti gríðarlega athygli sem von er. Hafþór hefur reynt að bera hönd yfir höfuð sér oftar enn einu sinni.
„Ég beitti Thelmu aldrei ofbeldi af neinu tagi. Vinir okkar og ættingjar töluðu hins vegar oft um það að Thelma hefði beitt mig bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi. Ég held að ýmsir aðrir, þar á meðal ýmsir nánir ættingjar Thelmu, hafi orðið fyrir sams konar reynslu af Thelmu.“
29 júní síðastliðinn tjáði Hafþór sig síðast um viðtalið. Þar sagði Hafþór:
„Ég býst við að ég birti fleiri færslur á Facebook um þetta makalausa viðtal á næstunni og ýmislegt annað sem tengist skrifum Fréttablaðsins/visir.is um mig að undanförnu.“
Ekkert hefur heyrst frá honum síðan þá um málið. Síðasta færsla á Facebook er frá 1. júlí birti hann af sér mynd þar sem hann stendur þungbúinn og alvarlegur á svip hjá fossi með víkingasverð.