fbpx
Fimmtudagur 16.október 2025
Fréttir

Ár liðið frá hryllingsárásinni á Hafdísi – „Þá mun ég alltaf sigra“ – Myndir

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 16. október 2025 21:44

Hafdís Bára Óskarsdóttir. Skjáskot úr Landanum, RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafdís Bára Óskarsdóttir greinir í tilfinningaþrunginni Facebook-færslu frá því að í dag er eitt ár síðan Jón Þór Dagbjartsson fyrrum maður hennar og barnsfaðir reyndi að myrða hana á heimili hennar á Vopnafirði. Jón Þór var dæmdur í sex ára fangelsi fyrir árásina og fyrir að áreita Hafdísi kynferðislega þremur dögum áður og að fara inn á heimili hennar í leyfisleysi.

Jón Þór fær 6 ára fangelsi fyrir hrottafengna árás á fyrrum sambýliskonu sína

Eins og DV greindi frá á meðan málið var til meðferðar fyrir Héraðsdómi Austurlands reyndi Jón Þór að varpa allri sök yfir á Hafdísi en hún svaraði því fullum hálsi.

Vopnafjarðarmálið: Jón Þór reyndi að koma sökinni á Hafdísi – „Hann hefur verið mjög duglegur sjálfur að rústa sínu mannorði“

Árásin var afar hrottafengin og litlu mátti muna að Hafdís biði bana. Í færslunni, sem hún veitti DV góðfúslegt leyfi til að fjalla um, segist hún hafa verið vöruð við Jóni Þór þegar þau voru byrjuð að draga sig saman en Jón Þór hafði áður verið sakaður um ofbeldi gegn konum og stúlkum:

„Þegar ég lít til baka þá get ég vel séð að ég hunsaði allt það sem aðrir sögðu við mig þegar við vorum að byrja í samskiptum. Ég hafði aldrei áður verið í vondum samböndum og því einföld í raun fyrir svartnætti annarra. Þegar maður verður ástfanginn þá er það aldrei fyrsta hugsun að vanrækja, vantreysta o.s.frv. Sérstaklega ekki þegar maður vill öllum vel… Hjálpsama manneskjan… var maður orðin meðvirk í hjálpsemi sinni?… Já klárlega… Var maður í afneitun? Í einhvern tíma en ekki allan tímann.“

Koma sér burt

Hafdís segist hafa löngu verið búin að átta sig á hvaða mann Jón Þór hafði raunverulega að geyma áður en hún sleit sambandi þeirra en samt hafi einhver von verið til staðar um að hann myndi breytast og það hafi reynst erfitt að slökkva í þeirri von.

Hafdís segist árið 2017 hafa ætlað að hætta með Jóni Þór, þá var hún ófrísk af syni þeirra, en ekki haft sig í það. Hún segist hafa trúað því að hann myndi vinna í sínum málum en þegar hafi verið komið fram á haustið 2022 hafi hún verið búin að fá endanlega nóg:

„Nóg af dramanu, afsökunum, fórnarlambinu, öskrunum, duldu hótunum og fleira. Það tók mig 2 ár.. 2 ár að drepa vonina, sætta mig við aðstæðurnar, horfa á þær í réttu ljósi og byggja mig upp til þess að losna úr aðstæðunum.“

Hafdís segist hafa samhliða þessu verið í fullri vinnu, verið í sveitarstjórn og sinnt heimilinu en álagið hafi tekið sinn toll af heilsu hennar.

Holan

Hafdís segist hafa ákveðið eftir árásina að festa sig ekki í því að hafa verið vöruð því að fara í samband með Jóni Þór:

„Vegna þess að ég vissi að ef ég myndi gera það, þá hefði ég allt eins geta grafið mína holu sjálf. Að festa mig ekki í holu sektarkenndar. Það hefði verið svo auðvelt.. Að láta svartnættið éta mann… En hefði það hjálpað? Nei engan veginn. Það sem hefur bjargað mér í einu og öllu er öll sú vinna sem ég var búin að gera gagnvart sjálfri mér þegar hryllingurinn dundi yfir.“

Hafdís segir að árið 2022 hafi hún alveg verið búinn að sjá það dýr í Jóni sem aðrir hafi séð. Hann hafi neitað að fara af heimilinu en þá hafi hún í auknum mæli haldið sig frá því. Þess vegna hafi hún oftar þurft að skilja syni sína eftir hjá honum hluta úr degi sem henni hafi þótt óþægilegt að þurfa að gera.

Með aðstoð vina, fjölskyldu, sálfræðings og vinnuveitanda tókst Hafdísi að öðlast nægan styrk til að slíta sig frá Jóni Þór en þá varð hann hættulegri.

Hættan

Hafdís útskýrir þessi orð sín á eftirfarandi hátt:

„Hann náði ekki lengur að stjórnast eins í mér og ég var farin að verða ákveðnari með það að ég vildi ekki hafa hann lengur nálægt okkur. Ég var ekki lengur að tipla á tánum í kringum hann eins og ég gerði áður til þess að reyna að halda honum góðum eða til að reyna að vona að við gætum átt eðlileg samskipti með tímanum. Ég hætti líka að segja honum ákveðna hluti sem ég vissi að hann myndi nota gegn mér ef ég sagði honum það og þannig tók ég völdin einnig af honum yfir mér. Með tímanum þá skynjaði hann það og það gerði hann enn paranojaðan og hættulegri.“

Hún segir Jón Þór mjög góðan í að koma fyrir sig orði og hafa reynt að hræra í henni eins og hann gat og telja öðrum trú að allt væri í góðu á milli þeirra. Hann hafi notað kynlíf sem vopn og oft þvingað hana til samræðis. Hafdís segist hafa látið það yfir sig ganga til að vernda syni sína og eigið líf þar sem Jón Þór hafi ekki hikað við að herða að hálsi hennar á meðan þessu stóð.

Hafdís segist hafa sagt ýmsum frá því sem gekk á og það hafi hjálpað henni mikið með sína andlegu og líkamlegu heilsu.

Lögreglan

Hafdís er sérstaklega ósátt við hvað lögreglan gerði lítið til að hjálpa henni þegar hún leitaði þangað nokkru fyrir árásina en segir að það hafi ekki komið til greina að yfirgefa heimilið enda hafi það verið hennar ekki Jóns Þórs:

„Það sem er hins vegar sárast í þessu öllu að þremur mánuðum áður en minn fyrrverandi réðst á mig þá var ég farin að biðja lögreglu um aðstoð. Ég var orðin svo buguð á ástandinu og hann ætlaði sér ekki að fara. Margir velta því kannski fyrir sér af hverju fór ég ekki? Vegna þess að þetta var og er mitt heimilið! Ekki hans! Af hverju eiga þolendur ofbeldis að þurfa flýja heimili sín? Af hverju átti ég, sem var í fullri vinnu, að byggja upp fyrirtæki,með tvo drengi, dýr o.fl. Að fara af heimilinu? Af hverju var ekki hægt að fjarlægja viðkomandi fyrir það fyrsta af heimilinu þegar ég var ítrekað farin að heyra í lögreglu eða hringja í neyðarlínu út af viðkomandi? Tala um ástandið í læknatímum o.fl.“

Hafdís segist aldrei hafa fengið nálgunarbann gegn Jóni Þór meira að segja eftir árásina og honum aldrei verið vísað burt af heimilinu þrátt fyrir slík ákvæði sé að finna í lögum. Spyr hún til hvers lögin séu ef ekki sé farið eftir þeim.

Ekkert meir

Hafdís segist eftir að hafa lent í þessu öllu saman þá hafi hún misst svo algjörlega trúna á löggæslu og dómskerfinu en þekki sannarlega mikið af góðu fólki sem sé að vinna innan þessara kerfa.

Hún furðar sig á því af hverju ekki hafi verið óskað eftir frekari gögnum um málið en bara þeim sem snúi að manndrápstilraun Jóns Þórs enda hafi ofbeldið sem hann beitti hana verið víðtækara en það, bæði kynferðislegt og andlegt.

Hafdís segir það einnig stórfurðulegt í ljósi málsatvika að hún sé ekki ein með forræði yfir syni þeirra en þá sé vísað í ákvæði laga um sáttameðferð. Hún minnir líka á að fái hún forræðið eigi Jón Þór rétt á að hitta drenginn þrátt fyrir það ofbeldi sem hann hafi beitt. Synir hennar njóti ekki þeirrar verndar sem þeir eigi rétt á.

Sigur

Hafdís segist hins vegar að lokum vera staðráðin í að láta allt sem á undan er gengið ekki buga sig:

„Ég veit að með mitt Vonarljós að vopni og alla þá sem ég á að.. Samhliða því að VELJA það að láta þetta ekki eyðileggja mig þá mun ég alltaf sigra. Ég mun halda áfram að vinna með það sem ég þarf að vinna með til að geta fúnkerað sem virkur þjóðfélagsþegn. En það er engum öðrum en sjálfri mér að þakka og þeim sem hafa staðið við mig í gegn um allt ferlið. Takk kærlega fyrir öll og ég lofa að ég mun á einn eða annan hátt nýta þessa reynslu á góðan hátt til þess að aðstoða aðra í svipuðum eða sömu aðstæðum.“

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Hafdís birtir með færslunni en á þeim má glöggt sjá áverka eftir árásina:

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Yfirmaður um ástandið á bráðamóttökunni – „Við getum auðvitað ekki sagt þeim að bíða úti á plani“

Yfirmaður um ástandið á bráðamóttökunni – „Við getum auðvitað ekki sagt þeim að bíða úti á plani“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Þorvaldur Davíð kallar eftir að virðing sé borin fyrir börnunum okkar

Þorvaldur Davíð kallar eftir að virðing sé borin fyrir börnunum okkar
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Viðskiptavinir Varðar nú tryggðir á meðgöngu og í fæðingu

Viðskiptavinir Varðar nú tryggðir á meðgöngu og í fæðingu
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Stefán segir niðurstöðu Götunafnanefndar óheppilega – „Þetta er örnefnaklám og það vill enginn sjá!“

Stefán segir niðurstöðu Götunafnanefndar óheppilega – „Þetta er örnefnaklám og það vill enginn sjá!“
Fréttir
Í gær

Hildur setur fótinn niður: „Ég fer fram á það að samfélagið hætti að gera lítið úr nemendum mínum“

Hildur setur fótinn niður: „Ég fer fram á það að samfélagið hætti að gera lítið úr nemendum mínum“
Fréttir
Í gær

Greindist loks eftir 23 heimsóknir á heilbrigðisstofnanir – Bundinn við hjólastól en fær engar bætur

Greindist loks eftir 23 heimsóknir á heilbrigðisstofnanir – Bundinn við hjólastól en fær engar bætur