Flugmenn sjá flugferðir gjarnan í öðru ljósi en farþegar. Í umfjöllun bandaríska vefmiðilisins Huffington Post er rætt við nokkra flugmenn um hvað ráð þeir gefa farþegum. Það er hvað þeir gera aldrei þegar þeir eru sjálfir farþegar í flugvél.
„Skiljanlega fara margir farþegar úr skónum þegar þeir setjast í sætið sitt, þægindanna vegna. Ég fer hins vegar alltaf í skónna þegar ég fer á klósettið,“ segir Stefán Dór Arnarsson, flugmaður hjá Play.
Ástæðan er sú að auðvelt er að fá hland eða aðra líkamsvessa á fæturnar í flugvél. Þrátt fyrir þetta fara margir farþegar skólausir, eða jafn vel sokkalausir, á klósettið.
Michelle Gooris, hollenskur flugmaður, gefur þessi ráð. En hún bloggar undir nafninu Dutch Pilot Girl.
„Ég myndi aldrei standa upp þegar flugvélin er ekki komin að hliðinu og ljósið fyrir sætisbeltin eru enn þá kveikt,“ segir Gooris. „Þetta hljómar eins og sjálfsagður hlutur en þér myndi bregða við að heyra hversu oft þetta gerist.“
Það er ólöglegt að standa upp á meðan sætisbeltisljósið er enn þá kveikt. Ástæðan fyrir þessu er að það getur komið fyrir að flugmaður þurfi að nauðhemla.
„Þú getur ímyndað þér hvað getur komið fyrir fólk ef það stendur á ganginum. Það er mjög líklegt að það slasist.“
Þá nefnir hún einnig að það sé kurteisi að sitja og bíða þangað til það er komið að manns eigin röð til að ganga út.
„Ég stoppa alltaf í verslun eða á einhverjum stað sem selur vatn í flösku til að fara með um borð,“ segir Jeanie Carter, flugmaður hjá Wheels Up.
„Í farþegaflugi getur það komið fyrir að flugþjónar geti ekki látið farþega fá drykki. Annað hvort af því að flugið er svo stutt eða vegna mikillar ókyrrðar,“ segir hún.
Til þess að koma í veg fyrir að maður verði þyrstur er best að tryggja sig fyrir fram og mæta með eigin drykk.
Annað ráð sem Jeanie Carter gefur er að halda ró sinni í ókyrrð. Eðlilegt sé að verða hræddur í ókyrrð en þá er best að hugsa á annan hátt um hana.
„Ókyrrð er í mesta lagi pirrandi, en flugvélin mun ekki falla af himnum ofan,“ segir hún. „Hún er vanalega ekkert hættuleg ef fyrirmælum áhafnar er fylgt. Vertu í sætinu þínu og með beltið þegar þú ert beðinn um það.“
Carter líkir ókyrrð við það að sigla á bát. „Á bátnum getur þú séð öldurnar sem þú vaggar á. Loft er vökvi eins og vatn, en í loftinu sérð þú ekki öldurnar. Þetta er fullkomlega öruggt og flugvélin ræður vel við þetta.“
„Snemma á ferli mínum í farþegaflugi setti ég alltaf bakpoka í farangursrýmið fyrir ofan og hugsaði ekki mikið um þetta,“ segir Carter. „Það er þangað til að ég sá farþega með töskur sem gátu ekki komið þeim neins staðar fyrir.“
Segist hún núna alltaf geyma bakpoka undir sætinu fyrir framan hana. „Ef allir gerðu þetta smáræði þá væri ferðin svo miklu auðveldari fyrir alla,“ segir hún.
Hér er annað ráð sem margir myndu halda að væri sjálfsagt en er það ekki. Mindy Lindheim, flugmaður og bloggari, gefur þetta ráð.
„Ég er aldrei með gluggana lokaða í flugtaki eða lendingu,“ segir Lindheim. „Það veitir manni ekki aðeins besta útsýnið heldur gefur það farþegum tækifæri til að fylgjast með. Flugmenn sjá ekki mikið af vængjunum úr rými sínu svo að ef farþegar sjá að eitthvað sé að væng geta þeir látið áhöfnina vita.“
Þrátt fyrir þetta segir hún að flug sé mjög öruggur ferðamáti.
„Við flugmenn undirbúum okkur fyrir það versta en slíkt er mjög óalgengt,“ segir hún. „Aksturinn að flugvellinum er mun hættulegri en flugferðin.“
„Frá sjónarhorni flugmanns er það mikilvægt að allt gangi smurt við að koma farþegum inn í vélina,“ segir Stefán Dór. „Áður en ég fer um borð hef ég allt mitt skipulagt þannig að ég komist á sem skemmstum tíma í sætið. Ég tek allt sem ég ætla að hafa hjá mér í fluginu úr pokanum sem ég ætla að geyma í efra farangursrýminu.“
Segir hann að þetta skipulag taki ekki nema örfáar mínútur. Þú sparar þann tíma sem það tekur að teppa ganginn fyrir öðrum farþegum.
Síðasta ráðið sem flugmennirnir gefa er að þakka áhöfninni eftir flugið. Ýmislegt á undanförnum árum, svo sem COVID-19 faraldurinn og aukin reiði og vandamál tengd farþegum, eða flugdólgum, hefur gert störf áhafna erfiðari.
„Þegar ég fer frá borði þakka ég ávallt áhöfninni,“ segir Jeanie Carter. „Ég reyni að gera þetta persónulegt og þakka þeim fyrir að koma mér á áfangastaðinn örugglega og á réttum tíma. Jafn vel þó að flugi sé seinkað eða það var vont veður sem áhöfnin þurfti að takast á við. Ég segi alltaf takk.“